Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði, segir fyrstu aðgerðir ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur ganga þvert gegn eigin stefnumiðum um aukna verðmætasköpun og framleiðni í atvinnulífinu.
Í grein í Morgunblaðinu í dag bendir Ragnar á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé lögð áhersla á að styðja við verðmætasköpun, auka framleiðni og bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja.
Slík markmið séu skynsamleg og nauðsynleg til að efla þjóðarhag og bæta lífskjör. Hins vegar séu fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í andstöðu við þessi stefnumið og stefni að hans mati að minnkandi verðmætasköpun, minni framleiðni og veikingu grunnatvinnuvega landsins.
„Því miður virðast ekki allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa lesið þessa stefnuskrá eða tekið hana alvarlega, því fyrstu aðgerðir þeirra einkennast af viðleitni til að draga úr verðmætasköpun, hindra framleiðniaukningu og veikja grunnatvinnuvegi þjóðarinnar,” skrifar Ragnar.
Sækja að sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu
Ragnar gagnrýnir sérstaklega áform atvinnuvegaráðherra í sjávarútvegi og segir þau fela í sér „að stórauka sérstaka skattheimtu“ og færa stærri hluta af þorskafla yfir í þjóðhagslega óhagkvæmt strandveiðikerfi sem byggi á ríkisstuðningi.
Þá telur hann að ráðherra sé að hindra hagræðingu í landbúnaði með því að afnema heimildir til samruna kjötvinnslustöðva. Að sama skapi gagnrýnir hann aðgerðarleysi gagnvart því að kornmölun flytjist úr landi.
Í ferðaþjónustunni nefnir Ragnar að ríkisstjórnin hyggist leggja á „auðlindagjöld“ sem geti verið „bæði víðtæk og margvísleg“. Slík gjöld muni að hans mati veikja samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og fæla ferðamenn frá landinu.
„Hærri skattar á atvinnuvegi draga óhjákvæmilega úr umsvifum þeirra miðað við það sem að öðrum kosti hefði orðið. Bæði sjávarútvegur og ferðaþjónusta eiga í harðri samkeppni við erlend fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum. Augljóst er að hærri skattar á þessar greinar veikja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart hinum erlendu samkeppnisaðilum. Umrædd skattahækkun er því til þess fallin að flytja hluta af verðmætasköpun þessara greina til útlanda og minnka þannig verðmætasköpun þeirra en ekki auka sem ríkisstjórnin segist vilja vinna að í stefnuskrá sinni,” skrifar Ragnar.
Neikvæð áhrif á þjóðarhag
Að mati Ragnars leiða þessar skattahækkanir óhjákvæmilega til minni verðmætasköpunar og samdráttar í þjóðartekjum. Hærri skattar á sjávarútveg og ferðaþjónustu leiði til þess að greinar sem keppa á alþjóðamörkuðum tapi í samkeppni, fjárfestingadrifið þróunarstarf minnki og útflutningstekjur dragist saman.
Hærri skattar á sjávarútveg stuðla að því að greinin tapi í samkeppninni um bestu fiskmarkaðina og verði að sætta sig við lægra afurðaverð en áður.
Hærri skattar þýða jafnframt að greinin hefur minna fé til fjárfestinga, rannsókna og þróunar og verður því einnig undir í samkeppninni um vöruþróun og gæði á fiskmörkuðum heimsins. Afleiðingin er lægra útflutningsverð sjávarafurða en ella hefði verið og því lægri útflutningstekjur þjóðarinnar jafnvel þótt fiskafli breytist ekki.
„Minna framleiðsluverðmæti í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þýðir að sama skapi minni þjóðartekjur. Minni þjóðartekjur þýða minna ráðstöfunarfé til neyslu og því minni hagsæld landsmanna. Einnig verður minna ráðstöfunarfé til fjárfestinga og því minni hagvöxtur. Þjóðartekjur í framtíðinni dragast því enn frekar saman og þar með hagsæld.”
Landsbyggðin ber þyngstu byrðarnar
Ragnar bendir á að áhrifin muni koma harðast niður á landsbyggðinni, þar sem um 90% sjávarútvegsins er staðsettur. Hann nefnir sérstaklega Snæfellsnes, Vestfirði, Austfirði og Vestmannaeyjar sem svæði sem muni verða verst úti. Þó muni skattlagning á ferðaþjónustu hafa áhrif víðar um landið, sérstaklega þar sem gjaldtakan verður hæst.
Til hvers er leikurinn gerður?
Greininni lýkur Ragnar með þeirri spurningu hvers vegna ríkisstjórnin fari þessa leið.
Hann dregur í efa að slík skattheimta þjóni því markmiði að bæta lífskjör landsmanna. Í stað þess að auka skattbyrði á grunnatvinnuvegi hefði nær verið að „minnka ónauðsynlegustu ríkisútgjöldin“.
Aukin skattheimta á grunnatvinnuvegina, sama hvaða nafni hún er kölluð, dregur úr umsvifum þeirra og minnkar þjóðartekjur og hagvöxt. Hún rýrir því lífskjör landsmanna bæði í bráð og lengd.
„Vegna minni þjóðartekna munu opinberar skatttekjur jafnframt óhjákvæmilega minnka er fram í sækir. Því er eðlilegt að spurt sé hví ríkisstjórnin hafi kosið að leggja í þessa vegferð. Er ekki hlutverk hennar að bæta lífskjör landsmanna? Telji hún að vandinn sé að brúa fjárhalla ríkissjóðs, hefði ekki verið miklu nær lagi að minnka ónauðsynlegustu ríkisjóðsútgjöldin? Þar er vissulega af nægum útgjaldaliðum að taka sem lítt eða ekki nýtast fyrir íslenska ríkisborgara,“ skrifar Ragnar að lokum.