Ragnar Árna­son, pró­fessor emeritus í hag­fræði, segir fyrstu að­gerðir ríkis­stjórnar Kristrúnar Frosta­dóttur ganga þvert gegn eigin stefnu­miðum um aukna verðmæta­sköpun og fram­leiðni í at­vinnulífinu.

Í grein í Morgun­blaðinu í dag bendir Ragnar á að í stjórnarsátt­mála ríkis­stjórnarinnar sé lögð áhersla á að styðja við verðmæta­sköpun, auka fram­leiðni og bæta rekstrar­skil­yrði fyrir­tækja.

Slík mark­mið séu skyn­sam­leg og nauð­syn­leg til að efla þjóðar­hag og bæta líf­skjör. Hins vegar séu fyrstu að­gerðir ríkis­stjórnarinnar í and­stöðu við þessi stefnu­mið og stefni að hans mati að minnkandi verðmæta­sköpun, minni fram­leiðni og veikingu grunnat­vinnu­vega landsins.

„Því miður virðast ekki allir ráðherrar ríkis­stjórnarinnar hafa lesið þessa stefnu­skrá eða tekið hana al­var­lega, því fyrstu að­gerðir þeirra ein­kennast af við­leitni til að draga úr verðmæta­sköpun, hindra fram­leiðni­aukningu og veikja grunnat­vinnu­vegi þjóðarinnar,” skrifar Ragnar.

Sækja að sjávarút­vegi, land­búnaði og ferðaþjónustu

Ragnar gagn­rýnir sér­stak­lega áform at­vinnu­vegaráðherra í sjávarút­vegi og segir þau fela í sér „að stórauka sér­staka skatt­heimtu“ og færa stærri hluta af þor­sk­afla yfir í þjóðhags­lega óhag­kvæmt strand­veiði­kerfi sem byggi á ríkis­stuðningi.

Þá telur hann að ráðherra sé að hindra hag­ræðingu í land­búnaði með því að af­nema heimildir til sam­runa kjöt­vinnslu­stöðva. Að sama skapi gagn­rýnir hann að­gerðar­leysi gagn­vart því að korn­mölun flytjist úr landi.

Í ferðaþjónustunni nefnir Ragnar að ríkis­stjórnin hyggist leggja á „auðlinda­gjöld“ sem geti verið „bæði víðtæk og marg­vís­leg“. Slík gjöld muni að hans mati veikja sam­keppnis­stöðu ís­lenskrar ferðaþjónustu og fæla ferða­menn frá landinu.

„Hærri skattar á at­vinnu­vegi draga óhjákvæmi­lega úr um­svifum þeirra miðað við það sem að öðrum kosti hefði orðið. Bæði sjávarút­vegur og ferðaþjónusta eiga í harðri sam­keppni við er­lend fyrir­tæki á alþjóð­legum mörkuðum. Aug­ljóst er að hærri skattar á þessar greinar veikja sam­keppnis­stöðu þeirra gagn­vart hinum er­lendu sam­keppnisaðilum. Um­rædd skatta­hækkun er því til þess fallin að flytja hluta af verðmæta­sköpun þessara greina til út­landa og minnka þannig verðmæta­sköpun þeirra en ekki auka sem ríkis­stjórnin segist vilja vinna að í stefnu­skrá sinni,” skrifar Ragnar.

Neikvæð áhrif á þjóðar­hag

Að mati Ragnars leiða þessar skatta­hækkanir óhjákvæmi­lega til minni verðmæta­sköpunar og sam­dráttar í þjóðar­tekjum. Hærri skattar á sjávarút­veg og ferðaþjónustu leiði til þess að greinar sem keppa á alþjóðamörkuðum tapi í sam­keppni, fjár­festinga­drifið þróunar­starf minnki og út­flutnings­tekjur dragist saman.

Hærri skattar á sjávarút­veg stuðla að því að greinin tapi í sam­keppninni um bestu fisk­markaðina og verði að sætta sig við lægra af­urða­verð en áður.

Hærri skattar þýða jafn­framt að greinin hefur minna fé til fjár­festinga, rannsókna og þróunar og verður því einnig undir í sam­keppninni um vöruþróun og gæði á fisk­mörkuðum heimsins. Af­leiðingin er lægra út­flutnings­verð sjávar­afurða en ella hefði verið og því lægri út­flutnings­tekjur þjóðarinnar jafn­vel þótt fisk­afli breytist ekki.

„Minna fram­leiðslu­verðmæti í ferðaþjónustu og sjávarút­vegi þýðir að sama skapi minni þjóðar­tekjur. Minni þjóðar­tekjur þýða minna ráðstöfunarfé til neyslu og því minni hagsæld lands­manna. Einnig verður minna ráðstöfunarfé til fjár­festinga og því minni hag­vöxtur. Þjóðar­tekjur í framtíðinni dragast því enn frekar saman og þar með hagsæld.”

Lands­byggðin ber þyngstu byrðarnar

Ragnar bendir á að áhrifin muni koma harðast niður á lands­byggðinni, þar sem um 90% sjávarút­vegsins er stað­settur. Hann nefnir sér­stak­lega Snæ­fells­nes, Vest­firði, Aust­firði og Vest­manna­eyjar sem svæði sem muni verða verst úti. Þó muni skatt­lagning á ferðaþjónustu hafa áhrif víðar um landið, sér­stak­lega þar sem gjald­takan verður hæst.

Til hvers er leikurinn gerður?

Greininni lýkur Ragnar með þeirri spurningu hvers vegna ríkis­stjórnin fari þessa leið.

Hann dregur í efa að slík skatt­heimta þjóni því mark­miði að bæta líf­skjör lands­manna. Í stað þess að auka skatt­byrði á grunnat­vinnu­vegi hefði nær verið að „minnka ónauð­syn­legustu ríkisút­gjöldin“.

Aukin skatt­heimta á grunnat­vinnu­vegina, sama hvaða nafni hún er kölluð, dregur úr um­svifum þeirra og minnkar þjóðar­tekjur og hag­vöxt. Hún rýrir því líf­skjör lands­manna bæði í bráð og lengd.

„Vegna minni þjóðar­tekna munu opin­berar skatt­tekjur jafn­framt óhjákvæmi­lega minnka er fram í sækir. Því er eðli­legt að spurt sé hví ríkis­stjórnin hafi kosið að leggja í þessa veg­ferð. Er ekki hlut­verk hennar að bæta líf­skjör lands­manna? Telji hún að vandinn sé að brúa fjár­halla ríkis­sjóðs, hefði ekki verið miklu nær lagi að minnka ónauð­syn­legustu ríki­s­jóðsút­gjöldin? Þar er vissu­lega af nægum út­gjaldaliðum að taka sem lítt eða ekki nýtast fyrir ís­lenska ríkis­borgara,“ skrifar Ragnar að lokum.