EFTA-ríkin, þ.e. Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss, hafa náð samkomulagi við Mercosur-ríkin, sem samanstanda af Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrugvæ, um fríverslunarsamning.
Þetta var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Buenos Aires í Argentínu í dag, þar sem ráðherrafundur Mercosur-ríkjanna fór fram. Ragnar G. Kristjánsson, sendiherra og skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tók þátt í athöfninni fyrir hönd Íslands.
Samningurinn, sem til stendur að fullgilda síðar á þessu ári, kemur til með að bæta aðgengi íslenskra fyrirtækja að stóru markaðssvæði með yfir 260 milljónir íbúa, styrkja viðskiptatengsl Íslands og Suður-Ameríku og skapa ný tækifæri, sérstaklega hvað varðar markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir, að því er segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.
„Ég fagna þessum víðtæka og metnaðarfulla samningi, sem er afrakstur virkrar þátttöku okkar í samningaviðræðunum frá upphafi. Hann skapar mikilvæg tækifæri á stærsta markaðssvæði Suður-Ameríku og endurspeglar skýra stefnu Íslands um að fjölga tækifærum fyrir íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
EFTA-ríkin hafa nú gert 35 fríverslunarsamninga við 49 ríki eða ríkjasambönd utan Evrópusambandsins.