Uppfærður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu var undirritaður í Kyiv í dag. Þetta kemur fram á vef Utanríkisráðuneytisins en Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd.

Viðræður um uppfærslu samningsins hófust árið 2023 og lauk í lok síðasta árs. Ísland leiddi viðræðurnar fyrir hönd EFTA-ríkjanna sem auk Íslands telja Liechtenstein, Noreg og Sviss.

„Þessi samningur er mikilvægt skref í átt að auknum viðskiptum Íslands við Úkraínu og endurspeglar skýran vilja okkar til að styðja við efnahagslega enduruppbyggingu og þróun í landinu. Hann opnar ný tækifæri fyrir íslensk og úkraínsk fyrirtæki, sérstaklega á sviði nýsköpunar, þar sem Ísland hefur mikið að bjóða,“ segir Logi.

Uppfærður samningur kveður á um bætt markaðskjör fyrir vöruviðskipti milli Íslands og Úkraínu en ráðuneytið segir að sá markaðsaðgangur sem Ísland veiti Úkraínu fyrir landbúnaðarvörur sé í samræmi við aðra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert á vettvangi EFTA.

Í ferð sinni til Kyiv mun ráðherra einnig heimsækja starfsstöð stoðtækjafyrirtækisins Össurar og skrifstofur UNESCO – Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna í borginni.