Viðskiptaráð birti í morgun úttekt um opinbert eftirlit hér á landi sem ráðið segir að standi samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Á Íslandi eru eftirlitsstofnanir mun stærri en á öðrum Norðurlöndum, hlutfallslega miðað við íbúafjölda.

Í úttektinni kemur fram að hlutfall íbúa sem starfar hjá fjármála-, lyfja- og samkeppniseftirliti er þrefalt til sexfalt hærra á Íslandi en á Norðurlöndunum.

Viðskiptaráð birti í morgun úttekt um opinbert eftirlit hér á landi sem ráðið segir að standi samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Á Íslandi eru eftirlitsstofnanir mun stærri en á öðrum Norðurlöndum, hlutfallslega miðað við íbúafjölda.

Í úttektinni kemur fram að hlutfall íbúa sem starfar hjá fjármála-, lyfja- og samkeppniseftirliti er þrefalt til sexfalt hærra á Íslandi en á Norðurlöndunum.

„Einn mesti munurinn í þessu samhengi er í tilfelli fjármálaeftirlits. Sex sinnum fleiri starfa við fjármálaeftirlit á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd. Sé eftirlitið skoðað í samhengi við undirliggjandi starfsemi þá starfar einn við í fjármálaeftirlit fyrir hverja 25 starfsmenn í fjármálageiranum.“

Viðskiptaráð segir svipaða sögu að segja af öðrum sviðum eftirlits. Þrefalt fleiri starfa við lyfja- og samkeppniseftirlit á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd.

Alls starfa um 3.750 manns hjá 49 opinberum stofnunum sem sinna eftirliti hér á landi. Þar af starfa um 1.600 manns við svokallað sérhæft eftirlit hjá stofnunum sem framfylgja afmörkuðum eftirlitsreglum sem beinast að fyrirtækjum og einstaklingum.

Mynd tekin úr úttekt Viðskiptaráðs.

Hraðari vöxtur en í einkageiranum

Fram kemur að frá árinu 2015 hafi starfandi í einkageiranum hér á landi fjölgað um 21%. Á sama tímabili hafi starfandi hjá eftirlitsstofnunum fjölgað um 29%.

„Tilgangur eftirlits er að tryggja að einkaaðilar fylgi þeim kvöðum sem hið opinbera leggur á þá. Með það í huga ætti samdráttur í einkageira að endurspeglast í formi samdráttar hjá viðkomandi eftirlitsaðilum.

Þessu er hins vegar öfugt farið á Íslandi. Í heimsfaraldrinum varð samdráttur í einkageiranum, en á sama tíma fjölgaði starfandi hjá eftirlitsstofnunum.“

Of margar og of fámennar

Viðskiptaráð gagnrýnir einnig fjölda stofnana og smæð þeirra. Um sex af hverjum tíu eftirlitsstofnunum hafa færri en 50 starfsmenn, að því er kemur fram í úttektinni.

„Fyrir vikið fer of hátt hlutfall rekstrarkostnaðar í stoðþjónustu og stjórnun, auk þess sem gæði þjónustu og möguleikar til sérhæfingar eru takmarkaðri.“

Viðskiptaráð segir að fyrirkomulag opinbers eftirlits sé auk þess ekki eins og best verður á kosið. Algengast sé að opinberum aðilum sé falið bæði reglusetningarvald og framkvæmd eftirlits þó svo að fleiri leiðir séu færar, t.d. útvistun eftirlits til faggiltra eftirlitsaðila.

„Hagkvæmari leiðir eins faggilding hafa verið vannýttar þrátt fyrir jákvæða reynslu af slíkri útfærslu.“

Leggja til sameiningu SKE, Neytendastofu og Fjarskiptastofu

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur að bættu fyrirkomulagi eftirlits sem ráðið telur að muni auka hagkvæmni án þess að draga úr samfélagslegum ábata.

Meðal tillagna er að einfalda stofnanaumhverfi eftirlits með minni skörun á milli verkefna stofnana. Viðskiptaráð nefnir tækifæri með sameiningu Neytendastofu, Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlitsins.

Auk þess er lagt til að Fjölmiðlanefnd, sem er með sex stöðugildi, verði lögð niður í núverandi mynd og verkefni stofnunarinnar sem snúa að neytendavernd verði færð til sameinaðrar stofnunar Samkeppnis- og Neytendaeftirlits og Fjarskiptastofu.