Ágúst Fannar Einþórsson, stofnandi Brauð & Co, segir að það hafi aldrei staðið til hjá sér að opna fleiri en eitt bakarí undir hatti Brauð & Co en að hann hafi „því miður“ látið undan eftir þrýsting frá meðeiganda sínum, Birgi Bieltvedt. Ágúst, sem seldi hlut sinn í fyrirtækinu árið 2019, lýsir stormasömu sambandi við Birgi og aðra meðeigendur í hlaðvarpinu The Snorri Björns Podcast Show .
Ágúst segir frá því að Birgir, sem er einnig stór hluthafi í Gló, hafi látið þau orð falla á fundi í upphafi, áður en fyrsta bakaríið opnaði, að það væri mjög sterk hugmynd að fara með Gló og lífrænt bakarí saman á erlendan markað. Ágúst segist þá hafa hugsað með sér að það yrði „ekki í þessu lífi“ en gaf síðar eftir.
„Ég verð að segja bara, því miður, þá var ég í einhverju stuði einn daginn og sagði já. Ég var búinn að segja svona hundrað sinnum nei, ég ætlaði ekki að gera það,“ segir Ágúst. Gló hafi á þessum tíma verið með stórt húsnæði í Fákafeni og komið hafi upp sú hugmynd að opna einnig Brauð & Co., sem síðar varð raunin.
Drukku upp í reikninginn
Brauð & Co opnaði sitt fyrsta bakarí við Frakkastíg vorið 2016. Ágúst, sem er einnig kallaður Gústi bakari, lýsir því að starfsfólkið á Frakkastíg hafi verið eins og ein fjölskylda. Reksturinn gekk ævintýrilega í byrjun og bakaríið var farið að selja brauð á flesta veitingastaði í bænum.
„Ég var með reikning á öllum börum bæjarins,“ segir Ágúst. „Við bara drukkum upp í reikninginn. Við vorum alltaf úti að borða, við vorum alltaf einhvers staðar að fá okkur að drekka. Alltaf þegar einhver stóð sig vel í vinnunni eða lagði aukalega á sig þá verðlaunaði ég hann með að fara út að borða.“
Vöxtur Brauð & Co var hraður og í byrjun árs 2018 voru bakaríin orðin fjögur. Ágúst segir fjölgun staða hafi verið „risastór mistök“ eftir á hyggja. Flækjustigin hafi orðið meiri og reksturinn hafi farið að halla undan fæti, m.a. þar sem ekki var jafnmikil aðsókn á hina staðina. Þá hafi fjölgun staða verið mistök fyrir kjörin hans vegna bónustengdra greiðslna en hluti af laununum voru tengd við EBITDA framlegð að sögn Ágústs.
„Fyrsta árið var hagnaður — EBITDA var 30%-40% af veltu. Ég fékk brjálaða bónusgreiðslu,“ segir Ágúst. Hann bætir þó við hann hafi verið búinn að taka til sín stóran hluta greiðslunnar fyrir fram og „misnotað viðskiptakortið“. „Ég fékk bara eitthvað klink og restin þurfti að fara í skatt.“
„Persónulega voru þetta risamistök fyrir mig að opna annað útibú því þarna fórum við að stækka veltu og minnka [framlegð]. Hagnaðurinn í milljónum var bara sami ef ekki minni en veltan stærri þannig að EBITDA hlutfallið minnkaði. Þegar ég horfi til baka þá borgaði ég í rauninni persónulega fyrir nýju bakaríin með bónusgreiðslunum mínum. Kannski ekki alveg svo gróft en þú fattar hvert ég er að fara,“ segir Ágúst.
Fékk lán frá meðeiganda fyrir einbýlishúsi
Ágúst segir að það hafi gengið erfiðlega að vera með báðar fætur á jörðinni eftir velgengni Brauð & Co. Skyndilega hafi allir þekkt sig og vingast við sig. Á sama tíma var hann kominn aftur í neyslu, að reyna að halda uppi fyrirtæki, fjölskyldu sem og sjálfum sér — „egóista sem var gjörsamlega farinn úr böndunum“.
„Ég dílaði ekki rétt við það, tók fáranlegar ákvarðanir. Ég tók lán frá meðeiganda mínum til að kaupa mér einbýlishús, sem ég ætlaði að borga eftir minni stærðfræði – sem er ekki góð, ég er frekar lélegur í stærðfræði. Ég ætlaði að borga upp lánið með allskonar bónusgreiðslum sem komu ekki. Það voru alls konar plön en einhverjar skýjaborgir líka - svo hrundu þær bara.“
Átti fyrst að fá 5% hlut í félaginu
Þegar fyrirtækið var stofnað átti Eyja fjárfestingafélag, í eigu Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, 51% hlut, Þórður Snær Sigurjónsson átti 31% hlut og Ágúst fór með 18% hlut. Ágúst segir að upphaflega hafi meðeigendur hans lagt til að hann fengi 5% hlut í fyrirtækinu.
„Ég fékk aðeins stærri hlut eftir mikið röfl og alls konar uppreisnir, mótmæli og leiðindi. Þú ert ekki kominn af stað [með fyrirtækið] en samt byrjaður í leiðindum sem er rosa skrýtið.“
„Borðaði hlutabréfin mín“
Spurður um aðdraganda þess að hann yfirgaf Brauð & Co árið 2019 segist Ágúst hafa verið búinn að mála sig út í horn í samskiptum við Birgi og hluthafana. Sjálfur hafi hann verið erfiður að eiga við og því skiljanlegt að Birgir hafi verið orðin þreyttur á sambandinu.
„Það komu upp alls konar atvik, t.d. þegar hann ætlaði að reka mig en hann þorði því ekki. Við sættumst þá og ég hætti sem framkvæmdastjóri,“ segir Ágúst. „Þá er ég kominn með aðra rullu en samt ekki […] Það þorði enginn að segja neitt við mig, ég hagaði mér eins ég réði öllu og stýrði (e. micromanage) öllu í gegnum [nýja framkvæmdastjórann]. Hann var á milli mín og Birgis. Þetta var óheilbrigt fyrir alla.“
Ágúst segist hafa tekið endanlega ákvörðun um að yfirgefa Brauð & Co eftir að hafa fengið tölvupóst frá aðstoðarmanni Birgis. Hann fór fram á að Ásgeir myndi greiða upp skuldir, þar á meðal viðskiptareikning hjá fyrirtækinu sem hljóðaði upp á ríflega 2 milljónir króna.
Ágúst segir að það hafi áður verið rætt um að hann myndi ekki greiða fyrir viðskiptareikninginn. Það hafi verið prinsippmál hjá sér að skrifa á sig allan mat sem hann tók, þar á meðal bakkelsi sem hann hafi afhent hópum í formi kostunar. Hann sendi því tölvupóst á stjórnina og meðeigendur sína og spurði hvort þau ætluðu að standa svona að hlutunum. Eftir að hafa ekki fengið svar segist Ágúst hafa dregið strik í sandinn og ákveðið að yfirgefa Brauð & Co.
„Ég enda á að selja hlutabréf til meðeigenda minna í Brauð & Co til að borga fyrir bakkelsi í Brauð & Co,“ segir Ágúst. „Kannski dálítið kómískt en ég get allavega sagt frá því að ég borðaði hlutabréfin mín.“
„Ég klára svo að gera nýjan samning þannig að það sé ekki hægt að reka mig, af því að ég vissi að Biggi var að pæla í að reka mig - því ég var alltaf með stæla,“ segir Ágúst.
Ágúst hafi í kjölfarið fengið lögfræðing til að aðstoða sig í viðræðum um nýjan starfssamning. „Þá fer ég bara markvisst í það reyna að koma mér út. Ég næ að selja, er keyptur út, fæ ár í laun – ég hætti bara samdægurs.“ Mestu verðmætin við að hætta hjá Brauð & Co hafi hins vegar verið að fá hugarró.
Tveir heimar
Ágúst segir að tíminn hjá Brauð & Co hafi verið rússíbanareið, mikil vinna og að það hafi tekið mikið á að rífast við „fólkið sem á að vera með þér í skútunni“. Hann segir að í lokin hafi hann verið alveg búinn á því og upplifði þar kulnun í fyrsta sinn.
„Ég var bara búinn að vera að rífast við einhvern gæja án þess að hann vissi það, stöðugt í þrjú ár. Frá því að ég vaknaði og þar til ég sofnaði var ég bara „helvítis hálfviti“, segir Ágúst. Hann ítrekar þó að þarna sé hann að tala um eigin upplifun og að hann hafi þurft að axla ábyrgð á sínum hlut.
„Þetta voru bara tveir heimar og ég var líka erfiður. Þeir reyndu allskonar hluti, það bara gekk ekki upp. Ég var óþolandi. Ég verð að horfa í eigin barm og taka ábyrgð á því.“
Ágúst kveðst þó afar þakklátur fyrir tímann sinn hjá Brauð & Co. „Þetta var sturlað verkefni.“ Hann hafi kynnst mörgum af sínum bestu vinum hjá fyrirtækinu og nokkrir þeirra vinna enn með honum í dag. Ágúst opnaði fyrir skömmu BakaBaka að Bankastræti 2 sem býður upp á pítsur að ítölskum sið, en staðurinn er bakarí og kaffihús á daginn.