Nokkur samhljómur virðist vera milli forsvarsmanna Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins um að aflýsa aðgerðum og setjast við samningaborðið að nýju.
Í pallborðsumræðna Stöðvar 2 og Vísis nú fyrir skemmstu bauð Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar nú fyrir skemmstu að aflýsa öllum verkbannsaðgerðum gegn því að Efling aflýsti verkföllum.
Sólveig svaraði játandi ef Halldór væri tilbúinn að ganga til viðræðna á ný og gera með henni „Eflingarsamning fyrir Eflingarfólk”, en Halldór sagðist vera tilbúinn í viðræður svo fremi sem aðgerðum yrði aflýst.
Heimir þráspurði hvort ekki blasti við að samningar yrðu að nást fyrir næstkomandi fimmtudag, þegar fyrirhugað er að allsherjarverkbann Samtaka atvinnulífsins á hendur félagsfólki Eflingar hefjist. Þeir rúmu 20 þúsund félagar í Eflingu sem verkbannið næði til fengju þá hvorki greitt af vinnuveitanda sínum né úr vinnudeilusjóði Eflingar samkvæmt yfirlýsingum Sólveigar.
Hann lagði málið þannig upp að annaðhvort yrðu þau að ná samningum eða Ríkissáttasemjari yrði að leggja fram miðlunartillögu fyrir þann tíma og spurði loks Halldór eftir nokkra umræðu um kjör og efnahagslegan veruleika láglaunafólks, hvort ekki væri réttast að aflýsa verkbannsaðgerðunum.
Halldór brást hinn besti við og spurði Sólveigu hvort þau ættu ekki bara að handsala það þá og þegar að aflýsa bæði verkbönnum og verkföllum og ganga svo saman á fund Ríkissáttasemjara.
„Við skulum aflýsa verkbanninu ef þú ert tilbúin að aflýsa öllum verkföllum,“
Sólveig sagðist tilbúin að samþykkja það svo lengi sem Halldór væri tilbúinn að fara og gera með henni „Eflingarsamning fyrir Eflingarfólk“.
„Ég er hér tilbúin að fara með mig sjálfa, samninganefnd Eflingar í þeim einbeitta vilja að ná samningi fyrir Eflingu en þú þarft þá að kalla til baka þessa yfirgengilegu stríðsyfirlýsingu þína. Nei, þú mátt bara fresta henni ef þú vilt, það er allt í lagi. Ég fresta ef þú frestar,“ sagði Sólveig Anna.