Helgi Jóhannes­son, skipta­stjóri þrota­bús Skagans 3X á Akra­nesi, segir marga hafa lýst á­huga á eignum búsins.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá óskaði Skaginn 3X á Akra­nesi eftir því að verða tekið til gjald­þrota­skipta í síðustu viku.

„Ég hef grun um að það séu ein­hverjir hópar að hnoða saman ein­hverju til­boði en ég er ekki búinn að fá nema eitt til­boð sem er í skoðun,“ segir Helgi í sam­tali við Fiski­fréttir Við­skipta­blaðsins. Til­boðið sem um ræðir er þó ekki í allar eignirnar en þó í stóran hluta af rekstrinum.

„Það er ekki búið að svara því og ég get ekkert gefið upp um það meira,“ segir Helgi.

Að­spurður segir Helgi alla þá sem rætt hafi verið við um mögu­leg kaup á eignum þrota­búsins vera inn­lenda. Fram undan væri þó fundur með einum er­lendum aðila.

Á síðustu vikum hafa fjöl­margir í sjávar­út­vegi lagt á­herslu á mikil­vægi starf­semi Skagans í greininni.

„Ég heyri af mönnum í út­gerðinni að það sé mikil­vægt að halda þessari þjónustu og þekkingu í landinu. Ég heyri það líka að þetta séu spennandi línur sem fyrir­tækið er með, annars vegar fisk­vinnslu­línur og hins vegar frysti­græjur. En þar er sitt hvor hópurinn af fjár­festum sem hefur á­huga á sitt hvorum hlutanum. Síðan eru það við­skipta­sam­böndin og einka­leyfin fyrir þessari þekkingu sem eru mjög spennandi. Það er það sem er sölu­varan,“ segir Helgi .

Helgi leggur jafnframt áherslu á menn þurfi að hafa hraðar hendur og tímaramminn sé mældur í dögum. „Það eru mikil verð­mæti sem leynast þarna og þau eru fljót að fara for­görðum ef ekki tekst að koma þessu í drift sem fyrst,“ segir Helgi.

„Ég vil fara að sjá ein­hver al­vöru til­boð og loka ein­hverju á næstu viku eða tveimur, bara mjög fljótt. Ég er þó ekki að segja að eftir þann tíma verði eitt­hvað breytt um gír hjá mér en þá tek ég stöðuna aftur. En ég vil fara að sjá tölur á blaði frá þessu á­huga­sama fólki,“ segir Helgi sem kveðst nú stöðugt vera að gefa upp­lýsingar til á­huga­samra.