Helgi Jóhannesson, skiptastjóri þrotabús Skagans 3X á Akranesi, segir marga hafa lýst áhuga á eignum búsins.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá óskaði Skaginn 3X á Akranesi eftir því að verða tekið til gjaldþrotaskipta í síðustu viku.
„Ég hef grun um að það séu einhverjir hópar að hnoða saman einhverju tilboði en ég er ekki búinn að fá nema eitt tilboð sem er í skoðun,“ segir Helgi í samtali við Fiskifréttir Viðskiptablaðsins. Tilboðið sem um ræðir er þó ekki í allar eignirnar en þó í stóran hluta af rekstrinum.
„Það er ekki búið að svara því og ég get ekkert gefið upp um það meira,“ segir Helgi.
Aðspurður segir Helgi alla þá sem rætt hafi verið við um möguleg kaup á eignum þrotabúsins vera innlenda. Fram undan væri þó fundur með einum erlendum aðila.
Á síðustu vikum hafa fjölmargir í sjávarútvegi lagt áherslu á mikilvægi starfsemi Skagans í greininni.
„Ég heyri af mönnum í útgerðinni að það sé mikilvægt að halda þessari þjónustu og þekkingu í landinu. Ég heyri það líka að þetta séu spennandi línur sem fyrirtækið er með, annars vegar fiskvinnslulínur og hins vegar frystigræjur. En þar er sitt hvor hópurinn af fjárfestum sem hefur áhuga á sitt hvorum hlutanum. Síðan eru það viðskiptasamböndin og einkaleyfin fyrir þessari þekkingu sem eru mjög spennandi. Það er það sem er söluvaran,“ segir Helgi .
Helgi leggur jafnframt áherslu á menn þurfi að hafa hraðar hendur og tímaramminn sé mældur í dögum. „Það eru mikil verðmæti sem leynast þarna og þau eru fljót að fara forgörðum ef ekki tekst að koma þessu í drift sem fyrst,“ segir Helgi.
„Ég vil fara að sjá einhver alvöru tilboð og loka einhverju á næstu viku eða tveimur, bara mjög fljótt. Ég er þó ekki að segja að eftir þann tíma verði eitthvað breytt um gír hjá mér en þá tek ég stöðuna aftur. En ég vil fara að sjá tölur á blaði frá þessu áhugasama fólki,“ segir Helgi sem kveðst nú stöðugt vera að gefa upplýsingar til áhugasamra.