Fjárfestingarfélagið Apartnor ehf. greiddi út tvo milljarða króna með lækkun hlutafjár til hluthafa sinna í júní.

Félagið var stofnað utan um hlut í fasteignauppbyggingu við Austurhöfn í Reykjavík og er í eigu fjárfestanna Eggerts Dagbjartssonar og Hreggviðs Jónssonar í gegnum félögin Solomio og Stormtré. Apartnor fór með 79,8% hlut í Austurhöfn samkvæmt nýjasta birta ársreikningi félagsins fyrir árið 2020.

Eggert og Hreggviður eru einnig meðal fjárfesta í fimm stjörnu Marriott Edition-hótelinu sem var opnað við hlið Hörpu í október síðastliðnum.

Íbúðirnar við Austurhöfn fóru á sölu haustið 2020 en upphaflega stóð til að það yrði í ársbyrjun 2019. Samkvæmt sölusíðu Austurhafnar er einungis ein af 71 lúxusíbúð við Austurhöfn óseld.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.