Einkaþjálfarinn Egill Einarsson hefur stofnað fjárfestingafélagið ALE ehf. Að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu er skráður tilgangur félagsins er „kaup og sala verðbréfa, hlutabréfa, útlánastarfsemi og tengdur rekstur."

Egill á einnig félagið EME ehf, sem skilaði nýlega ársreikningi vegna ársins 2021 en skráður tilgangur félagsins er leiga íbúðarhúsnæðis. Í ársreikningi EME kemur fram að bókfært virði fasteigna í eigu félagsins hafi aukist úr 79 milljónum króna í 163 milljónir á milli ára. Skuldir námu 168 milljónum um síðustu áramót en þar af voru langtímaskuldir 105 milljónir króna. Eigið fé félagsins var neikvætt um fjórar milljónir króna um áramótin en ekki kemur fram í ársreikningnum hvort eitthvað af skuldum félagsins sé við tengda aðila.

Egill er einn þáttastjórnenda í útvarpsþættinum FM95BLÖ á FM957 með Auðunni Blöndal og Steinda Jr., en þar koma hlutabréfafjárfestingar reglulega til tals.