Nýtt útlit Egils Orku frá Ölgerðinni hefur hlotið One Show auglýsingaverðlaun en í tilkynningu segir að þau séu meðal virtustu auglýsingaverðlauna í heimi. Yfir 20 þúsund verk eru send til dómnefndar á hverju ári en þar keppa að jafnaði stærstu og þekktustu vörumerki heims.

Á One Show verðlaununum etja Hreyfing og Egils Orka kappi við heimsþekkt vörumerki á borð við Nike, Fanta, Stella Artois, Samsung, Citibank og fleiri.

„Við erum gríðarlega stolt af því hvernig til hefur tekist með endurmörkun Orku. Þetta verkefni var unnið með mörkun og strategíu að leiðarljósi og byggir á að gefa ungu fólki vettvang til listtjáningar í slagtogi við vörumerki sem hreyfist á hraða menningar,“ segir Jóhannes Páll Sigurðarson, orkumálastjóri hjá Ölgerðinni.

Nú þegar er staðfest að Egils Orka fái verðlaun fyrir endurmörkun en einnig eiga Hreyfing og Egils Orka möguleika á að vinna verðlaun í nokkrum flokkum til viðbótar, þar á meðal fyrir hönnun pakkningar, lógó og ljósmyndun.

Auglýsingastofan Brandenburg þróaði verkefnin fyrir Hreyfingu og Ölgerðina.

„Þetta er mikill heiður að sjá að okkar verk skuli vera á pari við það sem gerist best
erlendis. Nú er bara að bíða spennt og sjá þegar One Show gullblýanturinn verður veittur,“ segir Arnar Halldórsson, sköpunarstjóri hjá Brandenburg.

Verðlaunaafhendingin One Show fer fram þann 17. maí næstkomandi í New York.