Egilsson ehf., félag utan um rekstur ritfangaverslunarinnar A4, hagnaðist um 102 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 445 milljóna hagnað árið áður. Velta félagsins nam 2,9 milljörðum króna árið 2021, en 2,8 milljörðum árið áður. A4 hefur starfað í meira en fjóra áratugi á Íslandi, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði, og rekur nú samtals sjö verslanir um allt land.

Þann 3. mars festi Egilsson ehf. kaup á rekstri Puzzled by Iceland sem sameinaðist starfsemi þess. Vörulína Puzzled by Iceland verður viðbót við vöruúrval Egilsson en vöruþróun hefur skipað stóran sess í starfsemi Puzzled by Iceland sem framleiðir vörur sem sækja innblástur sinn í íslenska náttúru.

Eigið fé Egilsson var 314 milljónir í lok árs, en stjórn félagsins gerir tillögu um að greiddur verði arður að fjárhæð 35 milljónir króna til hluthafa á árinu 2022 vegna rekstrar ársins 2021. Egill Þór Sigurðsson er forstjóri félagsins, en í upphafi og lok árs var allt hlutafé félagsins í eigu A4 ehf. Egill Þór á tæpan 80% hlut í A4, bæði undir eigin nafni og í gegnum félagið Andvari ehf.

Egilsson ehf.

2021 2020
Velta 2.903 2.809
Hagnaður 102 445
Eignir 1.224 1.215
Eigið fé 314 213
Lykiltölur í milljónum króna.