Greiningar­deild Lands­bankans hefur upp­fært verðbólgu­spá sína eftir verðbólgutölur frá Hag­stofu Ís­lands í morgun.

Bankinn gerir nú ráð fyrir að vísi­tala neyslu­verðs lækki um 0,24% í janúar, hækki síðan um 0,81% í febrúar og 0,55% í mars. Gangi spáin eftir verður ár­s­verðbólga 4,7% í janúar, 4,1% í febrúar og 3,9% í mars.

„Spáin er nokkurn veginn óbreytt frá síðustu spá sem við birtum í síðustu verðkönnunar­viku, og í nýjustu verðbólgumælingunni er fátt sem breytir verðbólgu­horfum næstu mánuði. Gangi þessi spá eftir þykir okkur lík­legt að peninga­stefnu­nefnd Seðla­bankans telji sig geta haldið vaxtalækkunar­ferlinu áfram þótt lík­lega verði vextir ekki lækkaðir nema um 0,25 pró­sentu­stig í febrúar,“ segir í Hag­s­já Lands­bankans.

Sam­kvæmt verðbólgumælingum Hag­stofunnar stóð verðbólga á árs­grund­velli í stað milli mánaða.

Vísi­tala neyslu­verðs án húsnæðis hækkaði um 0,37% milli mánaða og hefur nú hækkað um 2,8% á síðustu tólf mánuðum. Árs­hækkun vísitölunnar án húsnæðis jókst um 0,1 pró­sentu­stig milli mánaða.

„Frá því í septem­ber hefur verðbólga hjaðnað um 0,6 pró­sentu­stig og þar af má skýra 0,5 pró­sentu­stig með minna fram­lagi reiknaðrar húsa­leigu. Verðbólga án húsnæðis hefur á hinn bóginn lítið breyst frá því í septem­ber og mælist nú aftur 2,8% eins og þá. Við gerum ráð fyrir að á næstu mánuðum þróist reiknuð húsa­leiga með svipuðum hætti og síðustu mánuði,“ segir í Hag­s­já Lands­bankans.

Fram­lag reiknaðrar húsa­leigu, líkt og síðustu mánuði, lækkaði milli mánaða, sem að mati Lands­bankans endur­speglar kostnað við að búa í eigin húsnæði, til ár­s­verðbólgu.

„Það skýrist af því að síðustu mánuði hefur liðurinn hækkað minna en í sama mánuði fyrra árs. Þrátt fyrir það er húsnæði engu að síður enn sá þáttur sem vegur þyngst til ár­s­verðbólgu, þó að fram­lag þess fari minnkandi.“