Greiningardeild Landsbankans hefur uppfært verðbólguspá sína eftir verðbólgutölur frá Hagstofu Íslands í morgun.
Bankinn gerir nú ráð fyrir að vísitala neysluverðs lækki um 0,24% í janúar, hækki síðan um 0,81% í febrúar og 0,55% í mars. Gangi spáin eftir verður ársverðbólga 4,7% í janúar, 4,1% í febrúar og 3,9% í mars.
„Spáin er nokkurn veginn óbreytt frá síðustu spá sem við birtum í síðustu verðkönnunarviku, og í nýjustu verðbólgumælingunni er fátt sem breytir verðbólguhorfum næstu mánuði. Gangi þessi spá eftir þykir okkur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans telji sig geta haldið vaxtalækkunarferlinu áfram þótt líklega verði vextir ekki lækkaðir nema um 0,25 prósentustig í febrúar,“ segir í Hagsjá Landsbankans.
Samkvæmt verðbólgumælingum Hagstofunnar stóð verðbólga á ársgrundvelli í stað milli mánaða.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,37% milli mánaða og hefur nú hækkað um 2,8% á síðustu tólf mánuðum. Árshækkun vísitölunnar án húsnæðis jókst um 0,1 prósentustig milli mánaða.
„Frá því í september hefur verðbólga hjaðnað um 0,6 prósentustig og þar af má skýra 0,5 prósentustig með minna framlagi reiknaðrar húsaleigu. Verðbólga án húsnæðis hefur á hinn bóginn lítið breyst frá því í september og mælist nú aftur 2,8% eins og þá. Við gerum ráð fyrir að á næstu mánuðum þróist reiknuð húsaleiga með svipuðum hætti og síðustu mánuði,“ segir í Hagsjá Landsbankans.
Framlag reiknaðrar húsaleigu, líkt og síðustu mánuði, lækkaði milli mánaða, sem að mati Landsbankans endurspeglar kostnað við að búa í eigin húsnæði, til ársverðbólgu.
„Það skýrist af því að síðustu mánuði hefur liðurinn hækkað minna en í sama mánuði fyrra árs. Þrátt fyrir það er húsnæði engu að síður enn sá þáttur sem vegur þyngst til ársverðbólgu, þó að framlag þess fari minnkandi.“