Hátæknifyrirtækið Controlant hefur stækkað afar hratt undanfarin ár og er nú eitt af stærstu fyrirtækjum landsins. Samningur við lyfjarisann Pfizer, sem studdi sig við lausnir Controlant við dreifingu Covid-bóluefna á heimsvísu, ýtti verulega undir vöxt fyrirtækisins. Eftir að hafa lyft miklu grettistaki í Covid og náð að skala sig upp getur Controlant nú einblínt á framtíðina og að grípa þau tækifæri sem fyrirtækið stendur frammi fyrir að sögn Gísla Herjólfssonar, forstjóra og eins stofnenda Controlant.

„Við höfðum náð samningum við nokkur stærstu lyfjafyrirtæki heims fyrir Covid, þar á meðal um að vakta öll lyf Pfizer um allan heim. Þegar Covid skellur á, þá fékk það verkefni auðvitað hæsta forgang og fyrir vikið hægðist aðeins á öðrum verkefnum. Það tók okkur ár í allri þessari sprengingu að koma Covid-verkefninu í „business as usual“. Þá gátum við farið að gefa í á hinum vígstöðvunum. Það er vegferð sem er í góðum gangi.“

Controlant getur nú í auknum mæli einbeitt sér að því að uppfylla aðrar og fleiri skuldbindingar og hefur sem dæmi lokið að innleiða lausn sína við dreifingu á öllum lyfjum Pfizer.

Einblína á lyfjageirann

Meðal viðskiptavina Controlant eru sjö af tuttugu stærstu lyfjafyrirtækjum heims en markmiðið er að ná samningum við sem flesta af þeim „því þar teljum við okkur geta haft mestu áhrifin,“ segir Gísli. „Það eru ákveðnir þættir í lausninni okkar sem að henta ofboðslega vel fyrir lyfjaflutninga og lyfjageirann í heild sinni.“

Þá horfi Controlant einnig til sterkra flutningsaðila sem sérhæfa sig í lyfjageiranum, líkt og World Courier, auk framleiðenda flutningseininga og pakkninga sem verja lyfin í flutningum. Með áherslu á þessi þrjú svið nái Controlant vel utan um vistkerfi lyfjaflutninga.

Gísli, sem hefur áður talað um að tækifæri á öðrum mörkuðum líkt og í matvælageiranum, segir að Controlant hafi ákveðið að einblína á lyfjageirann. „Við eigum enn mikið verk óunnið í lyfjageiranum sem glímir við mikla sóun.“ Hann bendir m.a. á að kolefnisfótspor lyfjageirans sé hlutfallslega stærra en bílageirans.

„Með mikilli framþróun í tækni hefur fjöldi nýrra lyfja sem fara á markað fjórfaldast á síðustu tuttugu árum. Þetta eru mörg hver flókin líftæknilyf sem eru dýr, viðkvæm fyrir hitabreytingum og jafnvel framleidd í minna magni en fyrri lyf. Það verður erfitt fyrir lyfjageirann, sem hefur verið aftarlega á merinni þegar kemur að vörudreifingu, að ráða við þessa þróun nema með aukinni stafrænni þróun, sjálfvirknivæðingu og rauntíma innsýn í aðfangakeðjuna. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að dreifingin verði flöskuhálsinn í því að lækna fleiri sjúkdóma og koma bestu lyfjunum til sem flestra sjúklinga.“

Véla- og hugbúnaðarlausnir Controlant veita rauntímaupplýsingar um ásigkomulag og staðsetningu lyfja sem stuðlar að minni sóun og gerir dreifingaraðilum kleift að bregðast við frávikum til að koma í veg fyrir að lyf skemmist í dreifingu.

Nánar er fjallað um Controlant í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast viðtalið við Gísla í heild sinni hér.