Forstjóri og stjórnarformaður Haga segja að mikilvægasta verkefni félagsins sé að vinna úr fordæmalausum aðstæðum sem hafa leitt til þess að verð á öllum aðföngum í starfsemi félagsins hafi hækkað töluvert á undanförnum misserum. „Það er óvarlegt að gera ráð fyrir öðru en að svo verði áfram, sérstaklega þegar horft er til afleiðinga stríðsátaka í Úkraínu sem hófust í febrúar á þessu ári,“ segja Finnur Oddsson forstjóri og Davíð Harðarson stjórnarformaður í ávarpi í ársskýrslu Haga, móðurfélags Bónuss, Hagkaups og Olís.
Verðbólga hér á landi mældist 7,6% í maí og jókst um 0,4 prósentur frá fyrri mánuði. Matur og drykkjarvörur hafa hækkað um rúm 5% í verði hér á landi í ár. Matarverðsvísitala FAO, matvælastofnunar Sameinuðu þjóðarinnar hækkaði um 18,5% á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þá hefur verð á bensín og dísel hækkað um 30% á einu ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
„Eftir ögrandi viðfangsefni COVID-19 áranna, þá er ljóst að framundan verða áskoranir sem heldur eiga sér ekki fordæmi í íslenskri verslunarsögu. Sveiflur í eftirspurn á eldsneyti og hrávöru, hnökrar í framleiðslu á neysluvöru og truflanir á aðfangakeðju eru allt þættir sem hafa stuðlað að því að verð á öllum aðföngum í starfsemi Haga hefur hækkað töluvert á undanförnum misserum,“ segja Finnur og Davíð.
Þeir segja að á þessum tímum nýtist styrkleikar Haga vel og nefna þar innviði félagsins þegar kemur að innkaupum og aðfangakeðju ásamt „því leiðarljósi Bónus að bjóða ávallt upp á hagkvæmustu matvörukörfu landsins“. Að auki sé fjárhagsstaða félagsins sterk og horfur í rekstri almennt góðar.
Áherslur breyst á síðustu mánuðum
Finnur og Davíð lýsa því að framan af Covid-faraldrinum hafi helstu áskoranir Haga snúist um að halda vöruhúsum gangandi og verslunum og þjónustustöðvum opnum í hörðum og síbreytilegum sóttvarnaraðgerðum.
„Á undanförnum mánuðum hafa áherslur hins vegar breyst og færst frá viðbragði við sóttvörnum yfir í að tryggja framboð og hagkvæm verð á nauðsynjum í skugga mikilla verðhækkana á hrá- og neytendavöru sem einnig má rekja til faraldursins og munu væntanlega ágerast vegna stríðsátaka í Úkraínu.“
Innherji hafði eftir Finni Oddssyni á uppgjörskynningu Haga fyrir mánuði síðan að hann hefði ekki áhyggjur af skorti á ákveðnum vörutegundum hér á landi vegna hnökra í aðfangakeðjum. Helsta áhyggjuefni Haga væru áhrif verðbólgu og vaxtahækkana á ráðstöfunartekjur heimila.