Kauphöllin í Lundúnum varð fyrir enn einu áfallinu í síðustu viku þegar Glencore, eitt stærsta námufyrirtæki heims, tilkynnti að það væri að íhuga að færa sig yfir á annan markað í leit að hærra verðmati.

Ef Glencore yfirgefur markaðinn fylgir félagið í fótspor Flutter og CRH, sem hafa þegar tekið skref í sömu átt.

Samkvæmt Financial Times ætti þó eitt að veita kauphöllinni huggun: Hún stendur ekki frammi fyrir því að missa mun stærra félag, nefnilega eiganda sinn, London Stock Exchange Group (LSEG).

Með markaðsvirði upp á 62 milljarða punda er LSEG nú orðið níunda stærsta félagið í FTSE 100-vísitölunni.

Félagið hefur á undan­förnum árum um­breytt sér úr hugsan­legu yfir­töku­skot­marki í leiðandi fyrir­tæki á alþjóð­legum fjár­mála­markaði.

Félag Markaðsvirði (£bn) Markaðsvirði (ISKbn)*
AstraZeneca 182.1 32,778
Shell 159.8 28,782
HSBC 157.9 28,429
Unilever 111.2 20,027
Rio Tinto 86.1 15,506
Relx 72.5 13,057
BP 71.7 12,912
BA Tobacco 65.4 11,781
LSEG 61.8 11,134
GSK 59.2 10,678
(*Gengi: 1 GBP = 180 ISK, miðað við dæmigert gengi í febrúar 2025.)

Munurinn á gengi kaup­hallarinnar sjál­frar og eig­anda hennar hefur orðið sí­fellt aug­ljósari.

Þrátt fyrir að hluta­bréfa­við­skipti hafi dregist saman og félög fært skráningu sína annað hefur fjár­hags­legur styrkur LSEG aukist.

Skýringin er ein­föld: aðeins 3% af tekjum LSEG koma úr skráningu og hluta­bréfa­við­skiptum.

Síðustu ár hefur fyrir­tækið dreift áhættu sinni með því að þróast í miðstöð verðbréfa­við­skipta, af­leiðu­upp­gjöra og gagna­vinnslu.

Umbreyting LSEG hófst árið 2016 í tengslum við fyrirhugaða sameiningu við Deutsche Börse, en samruninn var stöðvaður af Evrópusambandinu.

Í dag er LSEG þó verðmætara en Deutsche Börse og sexfalt stærra en Euronext, sem rekur kauphallir í Amsterdam og París.

Velgengni með sjálfsmyndarkrísu

Þrátt fyrir fjárhagslegan styrk stendur LSEG frammi fyrir sjálfsmyndarkrísu, samkvæmt FT.

Ekki stendur til að svo stöddu að skrá félagið í kauphöllina í New York en verðmat þess yrði þó mun hærra ef það yrði gert, sér í lagi vegna þess að LSEG hefur orðið vaxandi afl í gagnavinnslu á fjármálaupplýsingum.

Flest fyrirtæki í svipaðri stöðu myndu jafnvel íhuga að skipta um nafn eða selja þann hluta sem er að dragast aftur úr og ekki skila jafn miklum tekjum og áður.

David Schwimmer, sem hefur verið forstjóri LSEG frá árinu 2018, mun kynna uppgjör fyrirtækisins fyrir árið 2024 í vikunni.

Hann hefur haldið áfram þeirri þróun sem Xavier Rolet, forveri hans hóf, og leiddi stærstu breytinguna hingað til með kaupum á fjármálaupplýsingafyrirtækinu Refinitiv fyrir 27 milljarða dala árið 2019.

Refinitiv hefur verið talinn einn helsti keppinautur Bloomberg en félagið er í nánu samstarfi við Microsoft um gagnavinnslu.

Á sama tíma hefur LSEG hagnast verulega á 51% eignarhlut sínum í Tradeweb Markets, bandarískum viðskiptavettvangi fyrir skuldabréf og afleiður.

Þessi viðskiptavettvangur er minna þekktur en Kauphöllin í Lundúnum, en skilar hærri tekjum.

Gildi óspennandi en öruggra viðskipta

Það vekur einnig athygli verðmætustu eignir LSEG eru sígildar, en ekki endilega áberandi einingar félagsins.

Ein verðmætasta eign LSEG er LCH, eitt stærsta uppgjörshús fyrir skuldabréf og afleiður í heiminum.

Á sama tíma hefur Euronext lagt meira upp úr hefðbundnum hlutabréfaviðskiptum og hefur skilað betri árangri í nýskráningum og veltu en Kauphöllin í Lundúnum.

Stéphane Boujnah, forstjóri Euronext, lét hafa eftir sér í síðasta mánuði að færsla skráðra félaga yfir til New York væri „einkavandamál London“ og væri ekki að gerast annars staðar í Evrópu.

LSEG er þó nú í mun betri stöðu en Euronext þrátt fyrir þessi vandamál.

Framtíð Kauphallarinnar í Lundúnum

LSEG hefur tekist að færa sig frá gamla „kauphallarviðskiptamódelinu“ og byggt upp sterkara félag með fjölbreyttari tekjustrauma.

Það er ólíklegt að hluthafar myndu vilja að það horfi til baka, enda eru fleiri tækifæri til vaxtar í gögnum, greiningum og viðskiptakerfum.

Samt má ekki láta bilið milli LSEG og Kauphallarinnar í Lundúnum verða of mikið.

Því þó svo að fjárhagslegt vægi kauphallarinnar innan samstæðunnar sé minna en áður, þá er hún enn kjarninn í vörumerkinu sem allt byggist á.