Norski matvælarisinn Orkla, sem á m.a. Nóa Síríus, er með það til skoðunar að skrá indversku dótturfélög sín á markað á næsta ári. Félagið telur að frumútboðið geti skilað sér allt að 400 milljónir dala, eða ríflega 55 milljarða króna, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg.

Orkla á indverska félagið MTR Foods sem framleiðir tilbúnar maltíðir og krydd. Jafnframt keypti norska félagið ráðandi hlut í indverska félaginu Eastern Condiments árið 2021.

Talið er að Orkla gæti sótt um skráningu á hlutabréfamarkaðinn í Mumbai strax á næsta ársfjórðungi. Einn heimildarmaður Bloomberg segir að horft sé til þess að indverska starfsemin verði metin á yfir 2 milljarða dala í útboðinu.

Talsmaður Orkla segir að fyrirtækið sé að kanna möguleikann á að komast inn á indverska fjármagnsmarkaðinn og tók jafnframt fram að undirbúningur fyrir mögulegt frumútboðs gefi góð fyrirheit. Fyrirtækið sé að meta valkosti sína og gerir ráð fyrir að ákvörðun liggi fyrir á næsta ári.

Fjölmörg erlend fyrirtæki hafa skráð indverskar rekstrareiningar sínar til að njóta góðs af háu verðmati á indverska hlutabréfamarkaðnum.

Suðurkóreski bílaframleiðandinn Hyundai Motor lauk 3,3 milljarða dala frumútboði fyrir indverska dótturfélag sitt í síðasta mánuði en um var að ræða stærsta frumútboð í sögu indverska hlutabréfamarkaðarins. Þá er LG Electronics að horfa til þess að tryggja sér 1,5 milljarða dala með frumútboði á indverskri starfsemi sinni.

Hlutabréfaverð Orkla hefur hækkað um tæplega 30% í ár og nemur markaðsvirði norska matvælafyrirtækisins nú um 9,2 milljarða dala.

Orkal eignaðist Nóa Síríus árið 2021. Orkla kom fyrst inn í hluthafahóp Nóa-Síríusar árið 2019 þegar það keypti 20% hlut. Árið 2019 samdi Orkla um að það gæti keypt hin 80% í félaginu eftir árið 2020, sem Orkla nýtti sér.

Orkla á jafnframt eignarhlut í danska félaginu Dragsbæk A/S sem á meirihluta hlutafjár í Kjarnavörum ehf. sem framleiðir meðal annars smjörlíki, sultur og sósur. Félagið á einnig eignarhlut í Bluma FOOD I/S, sem á félagið Visku hf. sem á 80% hlut í Gæðabakstri ehf.