Kjútís ehf., félag í eigu Ólafs Friðriks Ólafssonar, eiganda Pizzunnar, hefur tryggt sér vörumerkjaskráningu á orðmerkinu MEGAVIKA fyrir drykkjarvörur. Domino‘s á Íslandi, sem hefur notað vörumerkið Megavika frá árinu 2000, mótmælir skráningunni.
Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir tæpu ári að fyrir mistök endurnýjaði Domino’s ekki vörumerkið Megavika þegar gildistími skráningar þess rann út 2. maí 2023. Félagið hefur notað vörumerkið frá árinu 2000 og fékk það fyrst skráð árið 2003.
Magnús Hafliðason, þáverandi forstjóri Domino‘s á Íslandi, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækinu hafði ekki borist tilkynning um að skráningin, sem var til tíu ára í senn, væri að renna út. Ekkert bréf hafi borist frá Hugverkastofu, hvorki í bréfpósti né í gegnum Ísland.is. Þess í stað hafi verið sendur tölvupóstur á starfsmann sem var löngu hættur.
Kjútís sótti um skráningu vörumerkisins í janúar 2024 í flokkum 30 (pizzur), 32 (drykkir af ýmsu tagi) og 35 (auglýsingastarfsemi).
Hafnað um pítsur en grænt ljós á gosdrykki
Kjútís var synjað um orðmerkinguna í flokkum 30 og 35 síðasta sumar í samræmi við 14. gr. vörumerkjalaga þar sem Hugverkastofan mat það sem svo að hætt væri við ruglingi á merkinu og vörumerki Domino‘s. Stofnunin taldi Domino‘s hafa sýnt fram á eldri rétt á vörumerkinu vegna reglubundinnar notkunar á því.
Aftur á móti fékk Kjútís vörumerkið MEGAVIKA skráð í flokki 32 frá og með 15. febrúar síðastliðnum til ársins 2032. Það felur í sér að fyrirtækið á einkarétt á að nota þetta vörumerki fyrir viðkomandi vörur og eru auglýsingar þar ekki undanskyldar.
Flokkur 32 nær m.a. til vara á borð við bjór, óáfenga drykki, gosdrykki, vatn, ískrap, ávaxtasafa, prótínbætta íþróttadrykki og sódavatn.
Umsókn Pizza-Pizza ehf., rekstraraðila Domino‘s á Íslandi, um orðmerkið Megavika er enn í ferli fyrir pizzur í flokki 30 og auglýsingastarfsemi í flokki 35.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Þar er fjallað nánar um mótmæli Domino's við skráningunni. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.