Fast Retailing, stærsti fatasmásali Asíu og eigandi Uniqlo tískumerkisins, mun hækka laun starfsmanna í Japan um at að 40%. Fyrirtækið sagði að launahækkanirnar, sem taka gildi í mars, séu til þess fallnar að gera launa- og þóknunarkerfi félagsins samkeppnishæft á heimsvísu.

Byrjunarlaun hjá háskólamenntuðum einstaklingum hækka úr 255 þúsund jenum í 300 þúsund jen á mánuði, eða sem nemur 325 þúsund krónum á gengi dagsins. Mánaðarlaun nýrra verslanastjóra hækka úr 290 þúsund jenum upp í 390 þúsund jen. Fyrirtækið áætlar að heildar starfsmannakostnaður muni aukast um 15% á milli ára.

Fast Retailing hyggst mæta auknum launakostnaði, veikara jeni, og auknum efniskostnaði með verðhækkunum. Uniqlo hækkaði verð á flísjakka í verslunum í Japan úr 1.990 jenum í 2.990 jen á síðasta ári.

Í umfjöllun Financial Times er bent á að ákvörðun Fast Retailing komi í kjölfar þess að forsætisráðherra Japan, Fumio Kishida, kallaði eftir launahækkunum hjá japönskum fyrirtækjum í ljósi mikillar verðbólgu í landinu.

Hagfræðingar gera ráð fyrir að önnur fyrirtæki fylgi í fótspor Uniqlo eigandans en þó með minni hækkunum.