Nýir eigendur hafa tekið við rekstri Melabúðarinnar við Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur.
Samkvæmt tilkynningu frá versluninni og nýjum eigendum hverfa bræðurnir Pétur og Snorri Guðmundssynir úr eigendahópnum en þeir afhenda keflið hópi fólks sem ætlar sér að viðhalda og rækta þá persónulegu þjónustu og sérstöðu sem Melabúðin er þekkt fyrir sem sælkeraverslun.
Bræðurnir verða nýjum eigendum til halds og trausts næstu misseri og mun Inga Hrönn Georgsdóttir, sem hefur verið verslunarstjóri undanfarin ár, taka alfarið við daglegri stjórn verslunarinnar.
„Við í Melabúðinni munum halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið að undir forystu Péturs og Snorra með áherslu á þjónustu, gæði og breitt vöruúrval, sérstaklega með sælkeravörur. Rekstur Melabúðarinnar verður því með óbreyttu sniði,“ segir Inga Hrönn Georgsdóttir, verslunarstjóri Melabúðarinnar.
Melabúðin er rótgróin hverfisverslun sem hefur þjónustað viðskiptavini frá árinu 1956. Verslunin var lengst af í eigu sömu fjölskyldunnar. Guðmundur Júlíusson og Katrín Briem, foreldrar fráfarandi eigenda, tóku við rekstrinum árið 1979 og búðin hefur verið í fjölskyldunni síðan. Fráfarandi eigendur eru Pétur Alan og Snorri Guðmundssynir.
Pétur Alan Guðmundsson, sem hefur verið í forsvari fyrir Melabúðina lengi, segir Melabúðina vera ákveðinn miðpunkt í Vesturbænum, þangað sem fólk í hverfinu og fjölmargir víða að af höfuðborgarsvæðinu leita vegna viðmóts starfsfólks og einstaks vöruúrvals.
Viðskiptavinirnir sjálfir og yndislegt starfsfólk, sem hafi fylgt þeim í gegnum árin, skapi þessa stemningu og upplifun þeirra sem þar versla.
„Okkar áhersla hefur alltaf verið að Melabúðin sé verslun sælkerans, með einu breiðasta úrvali vöru sem finnst í matvöruverslun á Íslandi, framúrskarandi þjónustu við viðskiptavininn og að ógleymdu kjötborðinu sem er stoltið okkar. Kjötborðið okkar er eitt fárra sem selur enn þá í lausvigt. Við höfum líka alltaf tekið vel á móti nýjum íslenskum framleiðendum og heildsölum sem kynna nýjar vörur og það hafa að sjálfsögðu sælkerarnir okkar, viðskiptavinirnir, kunnað að meta,” segir Pétur.
„Við höfum byggt upp að okkar mati góða þjónustu og tryggan rekstur og við erum ánægðir með okkar áratuga framlag til viðskiptavina. En allt hefur sinn tíma. Pétur er búinn að standa í stafninum í rúmlega 30 ár og við erum ekki að yngjast. Við erum þess fullvissir að flotta starfsfólkið okkar sem við nú kveðjum og nýir eigendur, með Ingu verslunarstjórann okkar í brúnni, haldi áfram á sömu braut. Nú njótum við þess bara að vera hinum megin við borðið, enda búum við báðir á Melunum,“ segir Snorri Guðmundsson.
Nýir eigendur eru Anna Jónsdóttir, Bjarki Már Baxter, Pétur Árni Jónsson og Þorsteinn Rafn Johnsen.
Melabúðin var fyrsta sjálfafgreiðsluverslunin á landinu en áður keypti fólk inn mat í sérverslunum yfir búðarborðið. Sjálfsafgreiðsla var þá nýtt fyrirbæri og var gefinn út bæklingur sem sýndi hvernig fólk týndi saman vörurnar sjálft. Gerð var heimildarmynd nýlega um Melabúðina sem sjá má hér að neðan.