Mikil aðsókn hefur verið í sumar á veitingastaðinn Askur Pizzeria og systurbar hans Askur Taproom sem eru staðsettir á Egilsstöðum. „Það er fullbókað öll kvöld,“ segir Páll Edwald, annar stofnenda staðanna.
Hann og Friðrik Bjartur Magnússon stofnuðu í byrjun árs 2018 félagið Bar smíðar ehf., sem rekur báða staðina.
„Við kynntumst í gegnum sameiginlega vini þegar ég var að vinna í álverinu á Reyðarfirði,“ segir Páll. „Friðrik var að vinna sem bruggmeistari í Austri Brugghús og eitt sinn þegar hann var að sýna mér um fæddist sú hugmynd að opna bar á svæðinu. Hugmyndin þróaðist áfram og við opnuðum barinn þremur mánuðum seinna.“
Páll segir að þeim hafi þótt skemmtilegt að skíra félagið Bar smíðar þegar þeir voru að smíða barinn og undirbúa opnun Asks Taproom. „Síðar þegar við vorum að koma fram fyrir hönd fyrirtækisins, t.d. í bönkum og hjá öðrum sem þekktu ekki til rekstrarins, þá hljómaði nafnið eins og hjá innheimtufyrirtæki.“
Ári síðar opnuðu þeir veitingastaðinn Askur Pizzeria sem er í húsinu við hliðina á barnum. „Við vorum búnir að vera að skoða að vera með veitingastað líka og létum bara verða að því.“
„Veitingastaðurinn fékk mjög góðar viðtökur en síðan kom Covid. Það hræddi okkur fyrst en reksturinn hefur gengið vel í sumar og veltan í júlí er hærri heldur en í fyrra,“ segir Páll. „Svo virðist sem allir úr Reykjavík séu að fara hringinn.“
Núna um helgina, eftir tvö og hálft ár í rekstri, seldi Páll 50% hlut sinn í félaginu, 23 ára að aldri. Unnur Arna Borgþórsdóttir, sem er þekkt fyrir vera þáttastjórnandi hlaðvarpsþáttanna Morðcastið, keypti 40,9% hlut. Jón Vigfússon, rekstrarstjóri staðanna, keypti 9,1% hlut.
Páll mun eftir söluna einbeita sér að lögfræðinni. Hann brautskráðist með BA gráðu í lögfræði frá HR síðasta vor og starfar nú sem laganemi á LEX lögmannsstofu.
Friðrik Bjartur, framkvæmdarstjóri Bar smíða, segir að félagið muni byggja á þeim góða grunni sem lagður hefur verið og bæta enn frekar í. Hann segir að fyrirhugað sé að opna þriðja staðinn á Seyðisfirði á þessu ári og aldrei er að vita hvort þeim muni fjölga enn frekar á næstu árum.