Árið 1943 stofnaði Ragnar Björnsson, húsgagnabólstrari úr Hafnarfirði, fyrirtækið RB Rúm og starfaði þar alla sína ævi. Ragnar lést árið 2004 en fjölskylda hans hefur síðan þá haldið fyrirtækinu gangandi og haldið áfram að þjónusta góðum hópi viðskiptavina.
Birna Katrín Ragnarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri og dóttir Ragnars Björnssonar, segir að það hafi verið erfitt að selja fyrirtækið og að henni hafi pínu liðið eins og hún væri að gefa barnið sitt frá sér.
Hún segist hins vegar ánægð að sjá að fyrirtækið haldi áfram göngu sinni og óskar nýjum eigendum alls hins besta. Birna mun þó fylgja þeim næstu þrjá mánuði og eru allir starfsmenn RB Rúms tilbúnir að leggjast á plóg og hjálpa við áframhaldandi rekstur.
Óskar Bragi Sigþórsson og Nökkvi Sveinsson, eigendur Icelog ehf., fréttu fyrst af söluferlinu í október í fyrra og ákváðu þá að hitta Birnu og skoða starfsemina. Þeim leist mjög vel á fyrirtækið en þeir hafa báðir meðal annars átt rúm frá RB Rúm.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.