Bandarísk stjórnvöld hafa skipað eigendum gámaskipsins sem klessti á Francis Scott Key-brúnna í Baltimore í mars á þessu ári að greiða meira en 100 milljónir dala í skaðabætur. Áreksturinn varð sex manns að bana og hafði gríðarleg áhrif á samgöngur við höfnina.

Fyrirtækin sem áttu og ráku skipið Dali, Grace Ocean Private Limited og Synergy Marine Private Limited, hafa samþykkt að greiða sektina.

Greiðslan mun renna til bandaríska fjármálaráðuneytisins og annarra ríkisstofnana sem urðu fyrir áhrifum vegna slyssins.

„Þetta er gríðarlega mikilvægur úrskurður sem bætir upp að fullu kostnaðinn sem Bandaríkin urðu fyrir eftir þessar hörmungar og heldur jafnframt eigendum og rekstraraðilum Dali ábyrgum,“ segir Brian Boynoton, yfirmaður borgaralegrar deildar bandaríska dómsmálaráðuneytisins.

Rannsókn Bandaríkjamanna segir að bilanir hafi átt sér stað í rafmagns- og vélarkerfum skipsins en talið er að Dali hafi ekki fengið nægilega gott viðhald sem olli því að skipið missti afl og endaði á brúnni.

Þeir sex sem létust voru allir byggingaverkamenn sem unnu við að laga holur á brúnni en áreksturinn fleygði þeim öllum út í sjóinn.