Japanski eigandi sjoppukeðjunnar 7-Eleven hefur hafnað 38 milljarða dala yfirtökutilboði frá kanadíska keppinautnum sínum Alimentation Couche-Tard. Í bréfi sem beint var til væntanlegs kaupanda sagði Seven & i Holdings að Circle K hefði vanmetið verðmæti fyrirtækisins.

Hefðu kaupin farið í gegn hefði yfirtakan skapað 100 þúsund verslana sjoppuveldi um heim allan.

Upphaflegt tilboð mat verslunarkeðjuna á 14,86 dali á hvern hlut og var það meira en 20% yfir gengi félagsins skömmu áður en tilboðið barst. Tilboðið kom hins vegar þegar japanska jenið var umtalsvert veikara gagnvart Bandaríkjadal.

7-Eleven er stærsta verslunarkeðja heims og rekur um 85 þúsund verslanir í meira en 20 löndum. Alimentation Couche-Tard, sem er með höfuðstöðvar í Quebec, rekur hins vegar 17.000 verslanir víðs vegar um Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu.

Japanskt fyrirtæki af þessari stærðargráðu hefur þó aldrei verið keypt af erlendu fyrirtæki. Sögulega séð voru það yfirleitt japönsk fyrirtæki sem voru líklegri til að festa kaup á erlendum fyrirtækjum.