„Við erum net- og tæknifyrirtæki og ætlum að fókusera meira á það. Skífan og Gamestöðin henta ekki þeirri framtíðarsýn okkar,“ segir Skorri Rafn Rafnsson, forstjóri Móbergs. Félagið á Skífuna og Gamestöðina og auglýsti fyrirtækin til sölu um helgina.
Skífan og Gamestöðin reka tvær verslanir, eina í Kringlunni og aðra í Smáralind.
Eigendur Skífunnar keyptu reksturinn árið 2010 af Senu og reka það nú í Móberg. Skorri er aðaleigandi Móbergs. Næststærstur er Fjölvar Darri Rafnsson. Smærri hluthafar eru nokkrir.
Skífan er elsta afþreyingarfyrirtæki landsins og Gamestöðin er ein vinsælasta tölvuleikjaverslun landsins. Móberg einbeitir sér að öðrum sviðum, t.d. með Bland.is, sem er vinsælasta sölutorg landsins, Netgíró, hugbúnaðarfyrirtækið Expertia og Mói Internet, sem á vefina 433.is , Sport.is , Hún.is og fleiri vefi.
„Framtíðin er björt og fjölmörg ný verkefni eru í gangi. Á slíkum tímapunkti er gott að skerpa fókusinn,“ segir Skorri Rafn.