Sameignarfélagið D&T, sem á endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið Deloitte, hagnaðist um 315 milljónir árið 2023 samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Félagið hagnaðist mest allra samlags- og sameignarfélaga á sviði endurskoðunar og ráðgjafar og var hagnaðurinn sá þriðji mesti sé horft til allra félaga.

Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti á dögunum.

Eigendur D&T eru 33 talsins samkvæmt gildandi skráningu og starfa allir hjá félaginu en þar á meðal eru Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte, og Jónas Gestur Jónasson stjórnarformaður.

Á eftir D&T á listanum kemur Hnefill, félag í eigu Helgu Thors og Björns Ólafssonar, með 109 milljóna króna hagnað og 17 milljónir í launagreiðslur. Skráð starfsemi félagsins er gagnavinnsla, hýsing og tengd starfsemi.

Eins og áður eru sextíu félög á sviði endurskoðunar og ráðgjafar á lista Viðskiptablaðsins en áætlaður hagnaður þeirra nemur samanlagt rúmlega 1,5 milljörðum króna og jókst um 9% milli ára. Þá námu launagreiðslur ríflega 1,2 milljörðum og jukust um 16%.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í gærmorgun nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.