Eigendur HFF-skuldabréfa ÍL-sjóðs hafa samþykkt tillögur ríkisins um uppgjör á bréfunum í samræmi við tillögur sem viðræðunefnd fjármálaráðherra og ráðgjafar 18 lífeyrissjóða mótuðu.

Uppgjörið mun greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs, gamla Íbúðalánasjóðs, en uppgjörið mun einnig stórauka dýpt skuldabréfamarkaðarins hérlendis þar sem fjöldi verðtryggðra ríkisskuldabréfa á markaðinum mun þrefaldast samhliða því að ríkisábyrgðir lækka um 88%.

Þörf var á samþykki 75% kröfuhafa á fundi skuldabréfaeigenda í dag til þess að tillagan myndi hljóta brautargengi.

Tveir fundir fóru fram á Hilton Nordica í dag, fyrst með eigendum HFF-34 bréfa og síðan með eigendum HFF-44 bréfa. Fjölmiðlum var meinað aðgengi að fundinum.

Fundað fyrir luktum dyrum

Fjölmiðlum var meinað aðgengi að fundinum en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins samþykktu 81,4% eigenda HFF-34 bréfa tilboði ríkisins.

Klukkutíma síðar hófst fundur eigenda HFF-44 bréfa og samþykktu 81,6% eigenda tilboði ríkisins.

Í tillögunum sem voru samþykktar felst að kröfur verði efndar með afhendingu ríkisskuldabréfa, annarra verðbréfa og reiðufjár í gjaldeyri og íslenskum krónum.

Með þessu verði ÍL-sjóði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum HFF-bréfanna og öðrum kröfuhöfum.

Tæpar fjórar vikur eru liðnar frá því að kynntar voru tillögur viðræðunefndar fjármálaráðherra og ráðgjafa lífeyrissjóða um uppgjör HFF-bréfa til að greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs.

Í tillögunum fólst að kröfur samkvæmt HFF-bréfum, sem metnar eru á 651 milljarð króna, verði efndar með því að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi til uppgjörs ný ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarða króna, önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 milljarða, og 73 milljarða króna í reiðufé, þar af evrur að andvirði 55 milljarðar króna.

Ríkissjóður mun taka við hluta af vaxtaberandi eignum ÍL-sjóðs, samtals að fjárhæð um 222 milljarðar króna en þar er um að ræða húsnæðislánasafn ÍL-sjóðs auk annarra verðbréfa.

Ríkisábyrgðir lækka um 88%

Fjármálaráðuneytið áætlar að aðgerðin skili jákvæðu greiðsluflæði til ríkissjóðs á næstu árum og að skuldahlutföll A-hluta ríkissjóðs muni að loknum öllum ráðstöfunum vegna uppgjörsins batna um a.m.k. 5% af vergri landsframleiðslu.

Ríkisábyrgðir muni jafnframt lækka um 88% miðað við stöðu í árslok 2024. Verðbréf, sem ríkissjóður hefur gefið út eða ábyrgst, munu við uppgjör HFF bréfanna lækka um 111 milljarða króna að markaðsvirði.

HFF-bréfin, sem einnig kallast íbúðabréf, eru ríkistryggð skuldabréf útgefin af ÍL-sjóði.

Eitt helsta álitaefnið við tillögur viðræðunefndarinnar snéri að verðlagningu HFF-bréfanna með 32 punkta álagi ofan á brúaðan vaxtaferil ríkisskuldabréfa, samkvæmt heimildarmönnum Viðskiptablaðsins.

Brúaður vaxtaferill ríkisskuldabréfa er reiknuð ávöxtunarkrafa fyrir mismunandi tímalengdir sem fengin er með stærðfræðilegri brúun milli bréfa með ólíka gjalddaga.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hafði stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóðs landsins, ákveðið að greiða atkvæði með samþykkt tilboðs um uppgjör bréfanna.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), næststærsti lífeyrissjóður landsins, greindi frá því í vikunni að sjóðurinn myndi ganga að tilboði ríkisins.

Í tilkynningu sagðist sjóðurinn hafa farið ítarlega yfir tillögur sem ráðgjafar lífeyrissjóða annars vegar og viðræðunefnd fjármálaráðherra hins vegar lögðu fram um uppgjör HFF34 og HFF44 bréfa.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir helgi að Gildi lífeyrissjóður, sem er meðal stærstu eigenda HFF-bréfa, hefði ákveðið að hafna ofangreindri tillögu.

Davíð Rúdólfsson framkvæmdastjóri Gildis sagði meginástæðuna fyrir afstöðu sjóðsins vera að hann sé ósammála verðlagningu á bréfunum sem ríkið bjóði á móti.

„Ávöxtunarkrafa á þeim löngu ríkisskuldabréfum sem ríkið hyggst afhenda sem gagngjald fyrir bréfin er ekki ásættanleg. Hún er einfaldlega lægri en við erum tilbúin að greiða fyrir slík ríkisskuldabréf, bréf sem eru með lokagjalddaga umtalsvert lengra fram í tímann heldur en þau ríkisskuldabréf sem útgefin eru á markaðinum í dag,“ sagði Davíð í samtali við Viðskiptablaðið á föstudaginn.

Önnur ástæða sem Davíð nefndi snéri að seljanleika bréfanna en þau verða ekki með viðskiptavakt þótt þau séu verðlögð með þeim hætti.

„Það liggur fyrir að megnið af þeim ríkisskuldabréfum sem ríkið hyggst afhenda verða ekki með viðskiptavakt. Seljanleiki þeirra er því mun lakari heldur en ef svo hefði verið. Þessir sömu skuldabréfaflokkar eru hins vegar verðlagðir í fyrirliggjandi tilboði eins og þeir væru með viðskiptavakt,“ segir Davíð.

En minni seljanleiki kallar á seljanleikaálag líkt og fyrirliggjandi tillaga gerir ráð fyrir varðandi HFF-bréfin.