Fasti ehf., félag í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur, keypti í morgun 7,7% hlut í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu Sýn fyrir 1,3 milljarða króna, að því er kemur fram í flöggunartilkynningu. Hjónin eru aðaleigendur verktakafyrirtækisins Reirs.
Félagið Frostaskjól ehf., sem er í jafnri eigu Reirs og Flóka Invest, fjárfestingafélagi Róberts Wessman, seldi Fasta 7,1% hlut í viðskiptunum. Ætla má því að Flóki, sem Róbert á 92,5% hlut í samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins, hafi selt um 3,6% hlut í Sýn fyrir ríflega 600 milljónir í viðskiptunum.
Sýn hefur verið mikið umræðunni eftir að nýstofnaða fjárfestingafélagið Gavia Invest varð stærsti hluthafi Sýnar eftir að hafa keypt 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra Sýnar, fyrir ríflega 2,2 milljarða króna. Fjallað var um Gavia, sem á yfir 16% hlut í Sýn, í Viðskiptablaðinu í dag en greint var frá því að Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, sé stærsti hluthafi fjárfestingafélagsins.
Sjá einnig: Telur fjárfesta vanmeta Sýn verulega
Á þriðjudaginn var svo tilkynnt um viðskipti upp á 6% hlut í viðbót í Sýn fyrir um milljarð króna. Reynir segist hafa keypt hluta þeirra bréfa en auk þess sé um að ræða aðra aðila sem hafi trú á félaginu. „Það eru fleiri sem eru að átta sig á að þarna sé tækifæri og vilja vera með í því.“