Samningur um kaup Lands­bankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undir­­­ritaður í síðustu viku. Endan­­legt kaup­verð var 28,6 milljarðar króna líkt og kveðið var á um í til­­­boðinu en endan­­leg greiðsla fyrir tryggingar­­fé­lagið er háð kaup­verðs­að­lögun á þeim degi sem bankinn tekur við rekstri þess.

Ei­­ríkur Magnús Jens­­son fjár­­mála­­stjóri Kviku segir söluna auka slag­­kraftinn í banka­­starf­­semi Kviku og gera bankanum kleift að sækja enn frekar fram.

„Í ein­­földu máli gerir salan á TM okkur kleift að færa eigið fé sem er í dag í tryggingar­­starf­­seminni yfir í banka­hluta sam­­stæðunnar. Eigið fé í banka­­starf­­seminni er því að aukast veru­­lega sem mun skila sér í tæki­­færum á að vera með breiðara vöru­­fram­­boð þegar kemur að láns­fjár­­mögnun fyrir fyrir­­­tæki og ein­stak­linga,“ segir Ei­­ríkur.

Spurður um hversu mikla aukningu er að ræða, segir Ei­­ríkur um 40%.

„En við erum að gera ráð fyrir að um helmingurinn af kaup­verðinu verði greiddur til hlut­hafa sem arður og þá standa eftir um 14 milljarðar af eigin fé sem bætist við banka­­starf­­semina sem nemur um 36 milljörðum í dag. Þannig þetta er nærri 40% aukning á eigin fé bankans, sem eykur út­lána­­getu og annað slíkt hjá okkur til muna,“ segir Ei­­ríkur.

„Þetta er ein af á­­stæðunum fyrir því að það var skyn­­sam­­legt að fara í þessa veg­­ferð að selja TM því þá myndi losna um eigið fé sem hægt er að nýta til frekari vaxtar. Þegar þetta er allt yfir­­­staðið með TM þá munum við svo halda á­­fram að breikka fjár­­mögnun bankans,“ segir Ei­­ríkur.

Í lok maí greindi Kvika markaðinum frá því að bankinn hefði stækkað skulda­bréfa­­flokk í sænskum krónum um 500 milljónir sænskra króna eða sem nemur tæp­­lega 7 milljörðum ís­­lenskra króna. Upp­­haf­­lega út­­gáfan nam 275 milljónum sænskra króna og er heildar­­stærð flokksins eftir út­­gáfuna því 775 milljónir sænskra króna.

Skulda­bréfin, sem bera fljótandi vexti og hafa loka­­gjald­­daga í maí 2026, voru seld á kjörum sem jafn­­gilda 240 punkta á­lagi á þriggja mánaða milli­­banka­vexti í sænskum krónum.

Spurður um hvað það þýði fyrir bankann að á­lagið hafi lækkað og út­­gáfan stækkað, segir hann þetta auka sam­­keppnis­hæfni Kviku. „Þetta gerir okkur kleift að bjóða fjár­­mála­­þjónustu á betri kjörum,“ segir Ei­­ríkur en það eru um tvö ár síðan Kvika byrjaði að ráðast í minni skulda­bréfa­út­­gáfur í sænskum og norskum krónum.

Íslendingar að glíma við auka álag

Það hefur lengi verið svo að ís­­lensk fjár­­mála­­fyrir­­­tæki hafa þurft að sætta sig við hærra álag á skulda­bréfa­út­­gáfur er­­lendis, spurður um þetta „auka álag á Ís­­lendinga“ segir Ei­­ríkur það vissu­­lega enn til staðar.

„Þrátt fyrir þennan góða árangur í skulda­bréfa­út­­gáfum hjá hinum ís­­lensku bönkunum undan­farið, þá er það enn tals­vert álag á kjör þeirra í saman­burði við evrópska banka með sam­bæri­­legt láns­hæfi. Það er enginn banki sem ég þekki til með svipað láns­hæfi og þeir að borga meira en 100 punkta álag, en til saman­burðar þá eru hag­­stæðustu kjör sem ís­­lenskur banki hefur náð að undan­­förnu er 175 punktar hjá Arion,“ segir Ei­­ríkur.

Spurður um hvað veldur þessu auka á­lagi, segir Ei­­ríkur smæð Ís­lands spila þar hlut­­verk.
„Þetta er aðal­­­lega hvað við erum lítil en það er margt sem spilar inn í. Ég held við séum ekki lengur að glíma við ein­hverjar af­­leiðingar hrunsins eða neitt því­­um­líkt,“ segir Ei­­ríkur.