Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffet, endaði þriðja ársfjórðung með metfé á hendi en félagið situr á 157 milljörðum Bandaríkjadölum sem samsvarar rúmlega 21,8 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Handbært fé fjárfestingafélagsins hefur aldrei verið meira en það var síðast í sambærilegum hæðum fyrir tveimur árum þegar félagið sat á 149 milljörðum dala.
Langstærsti hluti fjármagnsins er bundið í ríkisskuldabréfum til skemmri tíma en samkvæmt uppgjörinu jukust tekjur félagsins af vöxtum um 1,3 milljarða bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi í samræmi við sama fjórðung í fyrra.
Féð innan handar í næstu yfirtöku
Samkvæmt The Wall Street Journal situr Buffet á fénu eins og gammur sem er tilbúinn að stökkva á sína næstu bráð er hann finnur fyrirtæki sem hann langar að kaupa.
Charlie Munger, viðskiptafélagi Buffets til margra ára og varaformaður Berkshire Hathaway, sagði nýlega í viðtali við miðilinn að það væru „að minnsta kosti 50/50“ líkur á að þeir félagarnir færu í aðra yfirtöku bráðlega.
Berkshire keypti eigin bréf fyrir 1,1 milljarð dala á fjórðungnum eftir að hafa keypt eigin bréf fyrir 1,4 milljarða á öðrum ársfjóðrungi.
Hlutabréf í A hluta félagsins fóru í 563,072 Bandaríkjadali þann 19. september og höfðu þá aldrei verið hærri. Dagslokagengið á föstudaginn var 533,815 dalir.
Hlutabréfaeignir lækkuðu verulega
Rekstrarhagnaður félagsins var 10,8 milljarðar bandaríkjadala á fjórðungnum sem er hækkun frá 7,7 milljörðum á sama tímabili í fyrra.
Buffet hefur ítrekað sagt að besta leiðin til að fylgjast með velgengni Berkshire sé að skoða rekstrarhagnaðinn þar sem hann tekur ekki mið af fjárfestingum nema að litlu leyti.
Félagið þurfti þó að bókfæra tap en hlutabréf í Apple, stærstu hlutabréfaeign Berkshire, féllu um 12% á fjórðungnum. Hlutabréfaeign félagsins í American Express rýrnaði um 14%, Coca Cola fór niður um 7% og Bank of America um 4,6%. Öll fjögur fyrirtækin hafa þó byrjað fjórða ársfjórðung mun betur.