Berks­hire Hat­haway, fjár­festinga­fé­lag War­ren Buf­fet, endaði þriðja árs­fjórðung með met­fé á hendi en fé­lagið situr á 157 milljörðum Banda­ríkja­dölum sem sam­svarar rúm­lega 21,8 þúsund milljörðum ís­lenskra króna.

Handbært fé fjár­festinga­fé­lagsins hefur aldrei verið meira en það var síðast í sam­bæri­legum hæðum fyrir tveimur árum þegar fé­lagið sat á 149 milljörðum dala.

Lang­stærsti hluti fjár­magnsins er bundið í ríkis­skulda­bréfum til skemmri tíma en sam­kvæmt upp­gjörinu jukust tekjur fé­lagsins af vöxtum um 1,3 milljarða banda­ríkja­dala á þriðja árs­fjórðungi í sam­ræmi við sama fjórðung í fyrra.

Féð innan handar í næstu yfirtöku

Sam­kvæmt The Wall Street Journal situr Buf­fet á fénu eins og gammur sem er til­búinn að stökkva á sína næstu bráð er hann finnur fyrir­tæki sem hann langar að kaupa.

Charli­e Mun­ger, við­skipta­fé­lagi Buf­fets til margra ára og vara­for­maður Berks­hire Hat­haway, sagði ný­lega í við­tali við miðilinn að það væru „að minnsta kosti 50/50“ líkur á að þeir fé­lagarnir færu í aðra yfir­töku bráð­lega.

Berks­hire keypti eigin bréf fyrir 1,1 milljarð dala á fjórðungnum eftir að hafa keypt eigin bréf fyrir 1,4 milljarða á öðrum árs­fjóðrungi.

Hluta­bréf í A hluta fé­lagsins fóru í 563,072 Banda­ríkja­dali þann 19. septem­ber og höfðu þá aldrei verið hærri. Dagsloka­gengið á föstu­daginn var 533,815 dalir.

Hlutabréfaeignir lækkuðu verulega

Rekstrar­hagnaður fé­lagsins var 10,8 milljarðar banda­ríkja­dala á fjórðungnum sem er hækkun frá 7,7 milljörðum á sama tíma­bili í fyrra.

Buf­fet hefur í­trekað sagt að besta leiðin til að fylgjast með vel­gengni Berks­hire sé að skoða rekstrar­hagnaðinn þar sem hann tekur ekki mið af fjár­festingum nema að litlu leyti.

Fé­lagið þurfti þó að bók­færa tap en hluta­bréf í App­le, stærstu hluta­bréfa­eign Berks­hire, féllu um 12% á fjórðungnum. Hluta­bréfa­eign fé­lagsins í American Express rýrnaði um 14%, Coca Cola fór niður um 7% og Bank of America um 4,6%. Öll fjögur fyrir­tækin hafa þó byrjað fjórða árs­fjórðung mun betur.