Gunnars ehf., sem framleiðir majónes, sósur og ídýfur, tapaði 64 milljónum króna samanborið við 59 milljóna tap árið 2022. Eftir samfelldan taprekstur frá árinu 2017 var eigið fé félagsins neikvætt um 126 milljónir í lok síðasta árs.
„Rekstur félagsins hefur verið erfiður á undanförnum árum. Verð á ýmsum aðföngum og öðrum kostnaðarliðum hefur hækkað umtalsvert og hefur félaginu ekki tekist að velta þessum kostnaðarhækkunum út í verðlagið að fullu,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi Gunnars.
Sölutekjur Gunnars jukust um 4,6% milli ára og námu 481 milljón í fyrra. EBITDA-afkoma félagsins var neikvæð um 38 milljónir. Ársverk voru 14 líkt og árið áður.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 148 milljónir í árslok 2023. Eigið fé félagsins var neikvætt um 126 milljónir og skuldir voru um 284 milljónir. Félagið tók lán að fjarhæð 29 milljónir frá tengdum aðila í fyrra.
Búast við niðurstöðu í söluferlinu fyrir árslok
Gunnars majónes, sem er í eigu Kleópötru Kristbjargar Stefánsdóttur, hefur verið í söluferli um nokkurt skeið en félagið var auglýst til sölu í apríl 2022. Stjórn félagsins segist í ársreikningnum búast við að niðurstaða fáist í söluferlið fyrir árslok 2024.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður Kleópötru, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í sumar að samningaviðræður stæðu yfir við áhugasaman aðila.
Greint var frá því í mars 2023 að Myllan-Ora væri að ganga frá kaupsamningi um kaup á Gunnars majónesi. Umsamið kaupverð var í kringum 600 milljónir króna, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að umrædd viðskipti hefðu fallið upp fyrir.
Þar áður hafði Kaupfélag Skagfirðinga náð samkomulagi um kaup á majónesframleiðandanum árið 2022. Samkeppniseftirlitið ógilti hins vegar viðskiptin í byrjun síðasta árs og bar fyrir sig að með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðendum á majónesi og köldum sósum á Íslandi.
Gunnars Majónes var upphaflega stofnað árið 1960 og hefur alla tíð verið starfrækt í Hafnarfirði. Fyrirtækið varð gjaldþrota árið 2014. Kleópatra, sem hafði starfað sem forstjóri félagsins, keypti upp eignir þrotabúsins og hélt rekstrinum áfram á nýrri kennitölu.