Seðlabanki Íslands var rekinn með 33,6 milljarða króna tapi á fyrri árshelmingi, samanborið við 7,7 milljarða tapi á sama tímabili í fyrra. Ætla má að Seðlabankinn hafi tapað 20 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Bankinn birti árshlutauppgjör í dag.

Eigið fé Seðlabankans nam 56,3 milljörðum króna í lok júní síðastliðins, samanborið við 90 milljarða króna í lok síðasta árs. Til samanburðar er eiginfjármarkmið Seðlabankans 150 milljarðar króna og er eigið fé bankans því 62,5% undir markmiði.

Eignir Seðlabankans námu 926 milljörðum króna í lok júní síðastliðnum, samanborið við 922 milljarða í árslok 2024.

Taprekstur Seðlabankans má að mestu rekja til neikvæðs gengismunar að fjárhæð 33,4 milljarðar króna á fyrri árshelmingi. Umtalsverð styrking krónunnar á tímabilinu hafði í för með sér að gjaldeyrisforðinn rýrnaði.

Nafngengi krónunnar styrktist um 14,9% gagnvart Bandaríkjadal á fyrstu sex mánuðum ársins, 1,2% gagnvart evrunni og 4,1% gagnvart pundinu.

Seðlabankinn hóf reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði í apríl fyrir samtals 6 milljónir evra á viku. Bankinn tilkynnti þann 12. júní um að tvöföldun á reglubundnum gjaldeyriskaupum á millibankamarkaði upp í 12 milljónir evra í hverri viku. Seðlabankinn sagði meginmarkmiðið að efla þann hluta gjaldeyrisforða Seðlabankans sem fjármagnaður er innanlands og að mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs.

Þörf á eiginfjárframlagi ríkissjóðs?

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030, sem kom út í lok mars síðastliðnum, kemur fram að ríkissjóður standi frammi fyrir áhættu vegna afkomu Seðlabanka Íslands.

„Á grundvelli 40. gr. laga um Seðlabanka Íslands getur bankinn kallað eftir því að ríkissjóður leggi honum til aukið eigið fé ef það fer undir ákveðið viðmið sem stjórn bankans ákveður og afkomuhorfur hans eru þess eðlis að útlit er fyrir frekari lækkun eigin fjár. Eiginfjárframlagið getur orðið allt að 75 milljarðar króna á núverandi verðlagi,“ segir í fjármálaáætluninni.

Síðastliðin 10 ár hefur eigið fé Seðlabankans sveiflast nokkuð en 10 ára meðaltal eigin fjár er um 84 milljarðar króna samanborið við 90 milljarða króna eigið fé í lok árs 2024.

„Afkoma Seðlabankans ræðst að stóru leyti af þróun gjaldeyrisforðans, en veiking eða styrking krónunnar hefur veruleg áhrif á stöðu hans og þar með á stöðu eigin fjár bankans sem getur því sveiflast verulega. Við uppfærslu á eiginfjármarkmiði bankans eins og kynnt er í ársreikningi hans skýrist hvort og hvenær komi til innköllunar eigin fjár,“ segir í fjármálaáætlun 2023-2027.

Ásgeir: Fjárhagsstaðan hefur áhrif á trúverðugleikann

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á ársfundi bankans í fyrra að þótt seðlabankar séu ekki hagnaðardrifnir og geti tæknilega séð ekki orðið gjaldþrota í heimagjaldmiðli sínum þá hafi fjárhagsstaða þeirra áhrif á trúverðugleika þeirra.

„Stundum hefur verið litið á eigið fé þeirra sem eins konar fót undir verðmæti seðlaútgáfu þeirra. En í öllu falli er ljóst að taprekstur seðlabanka felur í sér raunverulega tilfærslu á verðmætum út í hagkerfið. Það er því af þessum sökum sem það er almenn alþjóðleg áhersla að seðlabankar haldi vel utan um eigið fé sitt, meðal annars til þess að tryggja trúverðugleika.“

Ásgeir sagði Seðlabankann ekki vera einan á báti þegar kemur að hallarekstri en flestir vestrænir seðlabankar búi nú við neikvæðan vaxtamun „sem er afleiðing af umfangsmikilli magnbundinni íhlutun eftir fjármálakreppuna 2008“.

„Seðlabankar hafa á síðustu misserum gripið til ýmissa aðgerða til þess að styrkja eiginfjárstöðu sína. Þær fela m.a. í sér eiginfjárinnspýtingu frá ríkissjóði, hækkun vaxtalausrar bindiskyldu, sérstakt gjald á innlánsstofnanir og lækkun vaxtagreiðslna til ríkissjóðs.“

Sama dag tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabankans um ákvörðun um að hækka fasta vaxtalausa bindiskyldu lánastofnana úr 2% í 3% af bindigrunni.