Ríkisútvarpið (RÚV) tapaði 188 milljónum króna eftir skatta í fyrra, samanborið við 6 milljóna króna hagnað árið áður. Eiginfjárhlutfall RÚV lækkaði um 1,7 prósentustig í fyrra og stóð í 17,4% í árslok 2024, samkvæmt nýbirtum ársreikningi ríkisfjölmiðilsins.

Eiginfjárhlutfall RÚV hefur lækkað samfellt frá árinu 2018 og ekki verið lægra síðan 2015. Eiginfjárstaða félagsins batnaði verulega árið 2016 vegna sölu byggingarréttar á lóðinni við Efstaleiti 1.

Eignir RÚV námu 9,3 milljörðum króna í árslok 2024, samanborið við tæplega 9,5 milljarða ári áður. Þar af voru sýningarréttir bókfærðir á 2,1 milljarð. Eigið fé var um 1,6 milljarðar, langtímaskuldir og skuldbindingar 5,1 milljarður og skammtímaskuldir 2,6 milljarðar króna.

Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um nýjustu fundargerð stjórnar RÚV þar sem m.a. er fjallað um skýrslu endurskoðenda vegna ársreikningsins. Endurskoðendur benda á að veltufé frá rekstri lækkuðu um 275 milljónir króna milli ára, úr 961 milljón í 686 milljónir.

„Þá er veltufjár- og lausafjárhlutfall (án sýningarrétta lágt og að öllu óbreyttu verði erfitt fyrir félagið að standa í skilum með skammtímaskuldir án þess að komi til aukningu skulda við lánastofnanir.“

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi RÚV segir að skuldir félagsins hafi um árabil verið háar, m.a. vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum.

„Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir á undanförnum árum sem hafa leitt til lækkunar skulda telur stjórn RÚV að félagið sé enn of skuldsett og mun halda áfram að leita varanlegra lausna á skuldsetningu þess.“

Viðsnúningur innan ársins upp á 140 milljónir

Stjórn RÚV rekur taprekstur félagsins að hluta til þess að tekjur félagsins lækkuðu um 1% raunvirði á milli ára en einnig til hárra gjaldfærslna vegna íþróttaviðburða og kostnaðar vegna kosninga og eldsumbrota.

„Á árinu var gripið til ýmissa ráðstafana til að bæta afkomu og sjóðstöðu innan ársins. Aðgerðirnar skiluðu meðal annars því að skuldir við lánastofnanir, að teknu tilliti til handbærs fjár, voru komnar í jafnvægi um áramót og nam viðsnúningurinn innan ársins 141 milljón króna.“

Þá segir stjórnin að aðgerðunum sé enn fremur ætlað að stuðla að hallalausum rekstri á árinu 2025 og að sjóðstaða félagsins verði jákvæð í árslok 2025.

Sala auglýsinga jókst um 3,6%

Tekjur RÚV jukust um 4,8% milli ára og námu 9.149 milljónum króna. Tekjur af almannaþjónustu jukust um 400 milljónir milli ára, úr 5,7 milljörðum í 6,1 milljarða. Tekjur af sölu auglýsinga og kostun jukust um 3,6% og námu 2.552 milljónum króna.

Rekstrargjöld jukust um 8,9% og námu tæplega 9 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) lækkaði úr 484 milljónum í 177 milljónir milli ára.

Laun- og launatengd gjöld námu 3.881 milljón króna og jukust um 195 milljónir króna milli ára eða 5,3%. Heildarstöðugildi á áinu voru 275 samanborið við 273 árið áður.