Niðurstaða árlegs mats Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) á áhættuþætti í starfsemi Íslandsbanka sem kerfislega mikilvægs fjármálafyrirtækis er að viðbótareiginfjárkrafa sem Íslandsbanki þarf að viðhalda frá og með gærdeginum lækkar um 0,4 prósentustig frá fyrra mati og nemur 1,4% af áhættugrunni.
Heildareiginfjárkrafa Íslandsbanka, að teknu tilliti til eiginfjárauka 31. desember 2024, lækkar við það úr 19,7% í 19,3%, samkvæmt tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar.
Ofangreint ferli felur í sér mat á eiginfjárþörf fjármálafyrirtækja sem leiðir af sér viðbótareiginfjárkröfu undir 2. stoð R (e. Pillar 2).
Kaupréttaráætlun samþykkt af hluthöfum
Á hluthafafundi Íslandsbanka, sem hófst kl. 16 í gær, samþykktu hluthafar tillögu um breytingar á starfskjarastefnu bankans.
Tillagan fól í sér að stjórn bankans verði heimilt annars vegar að setja á fót sérstakt kaupaukakerfi fyrir starfsfólk og hins vegar að innleiða kaupréttaráætlun.
Gert er ráð fyrir því að kerfið nái til alls fastráðins starfsfólks bankans annarra en þeirra sem óheimilt er að veita kaupauka. Lagt var til að ákveðinn hluti starfsfólks, allt að 15%, sem getur haft mest áhrif á rekstur og tekjur geti átt möguleika á kaupauka sem nemur allt að 25% af árslaunum sem verði greiddur að hluta í formi hlutabréfa í bankanum.