Fjárfestar hafa verið æstir í kauphallarsjóði á síðustu misserum en innflæði í kauphallarsjóði í Bandaríkjunum fór í fyrsta sinn í sögunni yfir 1 billjón (e. trillion) dala í fyrra samhliða því að eignir sjóðanna jukust um 30%.
Samkvæmt The Wall Street Journal má rekja ásóknina til ýmissa þátta en þeim fylgir oft lítill kostnaður fyrir fjárfesta, seljanleiki er mikill og þá borgar kaninn töluvert lægri skatt af ávöxtun í kauphallarsjóðum en hefðbundnum verðbréfasjóðum.
Að sögn WSJ er það þó gömul tugga í fjármálaheiminum að þegar ásókn er mikil í ákveðna tegund af fjármálagerningi byrjar fjármálageirinn að flækja vöruna að óþörfu.
Nýja gullæðið á Wall Street um þessar mundir að pakka saman afar flóknum fjárfestingavörum og koma þeim í kauphallarsjóði.
Um 30% af nýskráðum sjóðum í fyrra báru heiti sem vísaði í flóknar fjárfestingaraðgerðir, samkvæmt greiningu Morningstar Direct en það er um tvöfalt fleiri en meðaltal síðustu níu ára.
Heiti sjóðanna verða sífellt frumlegri og eignasöfn þeirra sífellt flóknari en að mati The Wall Street Journal vekur þetta upp spurningar um gagnsæi og hvort fjárfestar skilji raunverulega áhættuna og ávinninginn af slíkum flóknum aðferðum.
Slík þróun gæti aukið áhættu á markaðnum ef þessar nýju vörur valda óvæntum sveiflum eða tapa verðmætum í ótryggu umhverfi.
Of mikið flækjustig í sumum kauphallarsjóðum hefur heldur ekki endilega verið að skila betri ávöxtun í samanburði við einfaldari sjóði.
Eftir slæman desembermánuð lauk Simplify Enhanced Income ETF (með merkið HIGH) árinu 2024 með heildarávöxtun upp á aðeins 1,5%.
Í lýsingu sjóðsins, sem var stofnaður í fyrra, sagði að stjórnin stefndi á að „veita verulegar viðbótartekjur umfram skuldabréf“.
Til samanburðar skilaði SPDR Bloomberg 1-3 Month T-Bill ETF (BIL) 5,2% á sama tímabili.
HIGH fjárfestir ekki aðeins í skammtímaskuldabréfum, heldur kaupir og selur einnig kaup- og sölurétti til að afla viðbótartekna.
Ástæðan fyrir því að sjóðurinn er að kaupa afleiður er til þess að verja sig gegn sveiflum en hins vegar getur þessi aðferð leitt til mikils taps þegar sveiflur á markaði aukast verulega, eins og gerðist í ágúst og október.
Sjóðurinn hefur líka sveigjanleika til að fjárfesta á ýmsum ólíkindastöðum, svo sem í vísitölum eins og S&P 500, Nasdaq-100, og Russell 2000, auk kauphallarsjóða sem fjárfesta í gulli. Þessi breidd getur aukið áhættuna og skýrt af hverju ávöxtunin var lakari en hjá einfaldari sjóðum eins og BIL.
Samkvæmt The Wall Street Journal er þetta einungis eitt dæmi en það sýnir engu að síður mikilvægi þess að fjárfestar skilji hvernig flóknir sjóðir virka og hver áhættan er, sérstaklega þegar sveiflur á markaði eru miklar.
Að lofa hærri ávöxtun en af ríkisskuldabréfum þegar vextir í Bandaríkjunum eru 4,5% er ekki auðvelt og því geta sjóðirnir verið að sækja í áhættusamari fjárfestingar.
Ekkert lát virðist þó vera á stofnun nýrra sjóða hjá stóru eignastýringarfélögunum BlackRock, StateStreet og Vanguard.