Fjár­festar hafa verið æstir í kaup­hallar­sjóði á síðustu misserum en inn­flæði í kaup­hallar­sjóði í Bandaríkjunum fór í fyrsta sinn í sögunni yfir 1 billjón (e. trillion) dala í fyrra sam­hliða því að eignir sjóðanna jukust um 30%.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal má rekja ásóknina til ýmissa þátta en þeim fylgir oft lítill kostnaður fyrir fjár­festa, seljan­leiki er mikill og þá borgar kaninn tölu­vert lægri skatt af ávöxtun í kaup­hallar­sjóðum en hefðbundnum verðbréfa­sjóðum.

Að sögn WSJ er það þó gömul tugga í fjár­mála­heiminum að þegar ásókn er mikil í ákveðna tegund af fjár­mála­gerningi byrjar fjár­mála­geirinn að flækja vöruna að óþörfu.

Nýja gullæðið á Wall Street um þessar mundir að pakka saman afar flóknum fjár­festinga­vörum og koma þeim í kaup­hallar­sjóði.

Um 30% af nýskráðum sjóðum í fyrra báru heiti sem vísaði í flóknar fjár­festingarað­gerðir, sam­kvæmt greiningu Morningstar Direct en það er um tvöfalt fleiri en meðal­tal síðustu níu ára.

Heiti sjóðanna verða sí­fellt frum­legri og eignasöfn þeirra sí­fellt flóknari en að mati The Wall Street Journal vekur þetta upp spurningar um gagnsæi og hvort fjár­festar skilji raun­veru­lega áhættuna og ávinninginn af slíkum flóknum að­ferðum.

Slík þróun gæti aukið áhættu á markaðnum ef þessar nýju vörur valda óvæntum sveiflum eða tapa verðmætum í ótryggu um­hverfi.

Of mikið flækju­stig í sumum kaup­hallar­sjóðum hefur heldur ekki endi­lega verið að skila betri ávöxtun í saman­burði við ein­faldari sjóði.

Eftir slæman desem­ber­mánuð lauk Simpli­fy Enhanced Income ETF (með merkið HIGH) árinu 2024 með heildarávöxtun upp á aðeins 1,5%.

Í lýsingu sjóðsins, sem var stofnaður í fyrra, sagði að stjórnin stefndi á að „veita veru­legar viðbótar­tekjur um­fram skulda­bréf“.

Til saman­burðar skilaði SPDR Bloom­berg 1-3 Month T-Bill ETF (BIL) 5,2% á sama tíma­bili.

HIGH fjár­festir ekki aðeins í skammtíma­skulda­bréfum, heldur kaupir og selur einnig kaup- og sölurétti til að afla viðbótar­tekna.

Ástæðan fyrir því að sjóðurinn er að kaupa af­leiður er til þess að verja sig gegn sveiflum en hins vegar getur þessi að­ferð leitt til mikils taps þegar sveiflur á markaði aukast veru­lega, eins og gerðist í ágúst og október.

Sjóðurinn hefur líka sveigjan­leika til að fjár­festa á ýmsum ólíkindastöðum, svo sem í vísitölum eins og S&P 500, Nas­daq-100, og Rus­sell 2000, auk kaup­hallar­sjóða sem fjár­festa í gulli. Þessi breidd getur aukið áhættuna og skýrt af hverju ávöxtunin var lakari en hjá ein­faldari sjóðum eins og BIL.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er þetta einungis eitt dæmi en það sýnir engu að síður mikilvægi þess að fjár­festar skilji hvernig flóknir sjóðir virka og hver áhættan er, sér­stak­lega þegar sveiflur á markaði eru miklar.

Að lofa hærri ávöxtun en af ríkis­skulda­bréfum þegar vextir í Bandaríkjunum eru 4,5% er ekki auðvelt og því geta sjóðirnir verið að sækja í áhættu­samari fjár­festingar.

Ekkert lát virðist þó vera á stofnun nýrra sjóða hjá stóru eignastýringarfélögunum BlackRock, Sta­teStreet og Vangu­ard.