Eik fasteignafélag skrifaði í dag undir samkomulag um helstu skilmála kaupsamnings um allt útgefið hlutafé í Lambhagavegi 23 ehf. og Laufskálum fasteignafélagi ehf, en bæði félögin eru að fullu í eigu Klappar-eignarhaldsfélags ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu Eikar til Kauphallarinnar.
Lambhagavegur 23 á 11.944 fermetra gróðurhús í Úlfarsárdal í Reykjavík auk íbúðarhúsnæðis. Laufskálar eiga lóð og fasteign í Lundi í Mosfellsdal, sem er 6.821 fermetrar auk 14.300 fermetra byggingarheimildar. Í atvinnuhúsnæði félaganna fer fram grænmetisrækt Lambhaga ehf. sem er einnig í eigu seljanda.
Ákvörðun endanlegs kaupverðs er háð fyrirvörum, meðal annars um framkvæmd og niðurstöður áreiðanleikakannana, en að óbreyttu gæti heildarvirði hins selda í viðskiptunum numið allt að 4.230 m.kr.
Í tilkynningu segir að fjárfestingin bjóði upp á vænlega arðsemi með öflugum leigutaka auk stuðnings við íslenska matvælaframleiðslu.
„Það er mat Eikar fasteignafélags að matvælaframleiðsla sé vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Þá falli viðskiptin vel að yfirlýstum markmiðum stjórnvalda, um að auka sjálfbærni og efla fæðuöryggi, og aukinni vitundarvakningu neytenda um uppruna og gæði vara,“ segir í tilkynningunni.