Stjórn Eikar fasteignafélags hefur ákveðið að breyta arðgreiðslustefnu félagsins. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir stjórnin að ákvörðunin sé tekin að teknu tilliti til ályktunar á aðalfundi fasteignafélagsins í vor.
Uppfærð arðgreiðslustefna Eikar felur í sér að stefnt verði að því að greiða árlega út arð sem nemur a.m.k. 75% af handbæru fé frá rekstri ársins að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt verður í kaup á eigin bréfum fram að boðun næsta aðalfundar.
Framangreint hlutfall í fyrri arðgreiðslustefnu félagsins var 50%. Janframt bætist við að við mótun tillögu um arðgreiðslu skuli einnig litið til veðhlutfalls. Uppfærð arðgreiðslustefna hljóðar svo:
„Stefna stjórnar er að greiða árlega út arð sem nemur a.m.k. 75% af handbæru fé frá rekstri ársins að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt verður í kaup á eigin bréfum fram að boðun næsta aðalfundar. Við mótun tillögu um arðgreiðslu skal litið til fjárhagsstöðu félagsins, veðhlutfalls, fyrirætlana um fjárfestingar og stöðu efnahagsmála.”
Eik tilkynnti einnig eftir lokun Kauphallarinnar um að félagið hefði náð samkomulagi við hluthafa Festingar um kaup Eikar á síðarnefnda félaginu.