Eik fasteignafélag hefur hækkað um 4,81% það sem af er degi í kjölfar fregna um yfirtökutilboð frá stjórn fasteignafélagsins Regins.
Hlutabréfaverð Eikar er nú 10,90 krónur á hvern hlut en dagslokagengi gærdagsins var 10,4 krónur. Verðið náði hámarki í 11,1 krónum á hlut rétt eftir opnum markaða í dag.
Viðskiptablaðið greindi frá því í nótt að Stjórn Regins ákvað að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar.
Verði tilboðið samþykkt verður markaðsvirði félagsins 77 milljarðar, sem þýðir að það verður eitt stærsta félag Kauphallarinnar. Gangi þessar áætlanir eftir mun félagið „sækja fram undir nýju nafni“.
Tilkynning var send Kauphöllinni rétt eftir miðnætti en með valfrjálsu tilboði er átt við tilboð sem beint er til allra hluthafa viðkomandi félags án þess að um tilboðsskyldu sé að ræða.
Í aðdraganda tilkynningarinnar nálgaðist Reginn stóra hluthafa í Eik með markaðsþreifingum og lýsti mögulegum viðskiptum og framtíðarsýn fyrir sameinað félag. Í kjölfarið hafa hluthafar, sem fara með meirihluta hlutafjár Eikar, lýst yfir jákvæðum viðbrögðum gagnvart áformunum.