Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,2% í 2,1 milljarðs króna á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf fasteignafélagsins Eikar eða um 410 milljónir.

Eik lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2%. Gengi hlutabréfa Eikar stendur nú í sléttum 10 krónum á hlut og er um 8,3% lægra en í upphafi árs. Fasteignafélagið Reitir lækkaði um 1,7%, næst mest af félögum Kauphallarinnar í dag.

Af þeim sjö félögum sem hækkuðu í viðskiptum dagsins var Arion banki eina félagið sem hækkaði um meira en eitt prósent.

Hlutabréfaverð Arion hækkaði um 1,5% í 173 milljóna veltu og stóð í 135 krónum á hlut við lokun markaða. Gengi bankans hefur nú hækkað um 4,7% á einum mánuði en er enn um 5,8% lægra en í byrjun árs.

Hlutabréf Alvotech hækkuðu lítillega í kjölfar tilkynningar um að félagið væri búið, í samstarfi við STADA, að hefja sölu í helstu Evrópulöndum á líftæknihliðstæðu við Stelara sem er notað til meðferðar við þrálátum meltingar-, húð- og gigtarsjúkdómum. Gengi Alvotech stóð í 1.650 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar sem samsvarar 0,8% dagshækkun.