Eimskip hefur kynnt breytingar á gámasiglingakerfi félagsins sem innleiddar verða á fyrsta fjórðungi næsta árs. Breytingarnar eru m.a. sagðar hluti af mótvægisaðgerðum Eimskips til að draga úr þörf til kaupa á losunarheimildum í tengslum við vænta innleiðingu á European Emission Trading System (ETS) í byrjun árs 2024.
„Breytingar fela það í sér að einfalda siglingakerfið enn frekar, fækka viðkomum í höfnum og stytta siglingaleiðir og þar með minnka kolefnislosun og lækka kostnað,“ segir í tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar.
Umræddar breytingar eru lokafasi í verkefni Eimskips sem hófst fyrr á árinu með siglingakerfisbreytingum sem innleiddar voru á vormánuðum. Áætlað er að breytingarnar muni m.a. hafa eftirfarandi áhrif á ársgrundvelli.
- Sigldum mílum fækki um rúmlega 40.000 eða ríflega 5%
- Samdrátt í olíunotkun um tæp 5.000 tonn og CO2 losun um 15.000 tonn eða um 7% og sé það borið saman við árið 2022 er samdráttur í olíunotkun um tæp 11.000 tonn eða um 14%
- Fækkun um eitt gámaskip í þjónustu sem nú þegar er komið til framkvæmda og eru þau nú 11 talsins
Meðal annarra aðgerða sem fjallað er um í tilkynningu Eimskips er fjárfesting í nýjum haafnarkrana í Sundahöfn og fjölgun um einn krana á Reyðarfirði.
Jafnframt segir að flutningstími frá Bretlandi til Íslands komi til með styttast með aukinni þjónustu. Auk þess verður komið á beinni tengingu frá Færeyjum til Þýskalands.
Breytingar á þremur siglingaleiðum fram undan
Eimskip segir að fram undan séu breytingar á þremur siglingaleiðum, þ.e. rauðu, gulu og bláu.
„Rauða leiðin verður áfram í samsiglingum með RAL en með þeirri breytingu að leiðin mun hafa viðkomu í Bremerhaven í Þýskalandi og á móti fækkar viðkomum í öðrum höfnum.
Bláa leiðin mun ekki lengur sigla til Bremerhaven en mun bæta við viðkomu á norðurleiðinni í Teesport í Bretlandi fyrir innflutning til Íslands. Gula leiðin breytist töluvert en mun áfram gegna mikilvægu hlutverki fyrir Vestmannaeyjar og fær aukið vægi í þjónustu við Færeyjar.“