Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,7% í dag og hefur nú hækkað sex daga í röð. Meirihluti félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkaði um meira en 1% í viðskiptum dagsins.
Eimskip leiddi hækkanir en gengi félagsins hækkaði um 5,8% í 434 milljóna veltu í dag. Hlutabréf flutningafélagsins hafa nú hækkað um 16% frá því að það tilkynnti eftir lokun markaða á miðvikudaginn að samkvæmt stjórnendauppgjöri verði EBITDA-afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi helmingi meiri en á sama tíma í fyrra.
Sjá einnig: Afkoma Eimskips stórbatnar milli ára
Hlutabréfaverð Origo hækkaði um 5,2% í 270 milljóna viðskiptum og stendur nú í 61 krónu. Þá hækkuðu hlutabréf VÍS og Eikar um meira en 3%, en þó í minni veltu.
Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 1,7% í verði í 650 milljóna viðskiptum. Gengi Íslandsbanka hækkaði einnig um eitt prósent og hlutabréf Kviku banka hækkuðu um 2,5%.
Hlutabréfaverð Icelandair lækkaði um 1,9% í 44 milljóna veltu og stendur nú í 1,57 krónum á hlut.