Hlutabréfaverð Eimskips hefur hækkað um nærri 5% í tæplega 600 milljóna króna viðskiptum frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Gengi Eimskips stendur nú í 550 krónum á hlut en til samanburðar var dagslokagengi flutningafélagsins síðast hærra í nóvember.
Eimskip sendi frá sér afkomuviðvörun eftir lokun markaða í gær og upplýsti að hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi 2022 var á bilinu 37,2-38,7 milljónir evra samkvæmt stjórnendauppgjöri. Það samsvarar 18-23% aukningu frá sama tímabili í fyrra.
„Þrátt fyrir hefðbundin árstíðaráhrif, var afkoma af alþjóðlegri starfsemi félagsins góð og nýting í siglingarkerfi félagsins var góð á fjórðungnum,“ sagði í tilkynningunni.