Frá og með 5. febrúar 2025 mun Eimskip hefja beinar áætlunarsiglingar til Świnoujście í Póllandi aðra hvora viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip.

Świnoujście mun tengjast beint við Reykjavík, Vestmannaeyjar og Tórshavn í Færeyjum, sem tryggir hraða og örugga tengingu á Gulu siglingaleið Eimskips.

„Viðbrögð viðskiptavina okkar hafa verið mjög góð eftir að við tilkynntum Świnoujście sem nýjan viðkomustað, enda er Pólland stór og öflugur markaður sem er mjög spennandi fyrir íslensk fyrirtæki. Við teljum að Pólland muni koma sterkt inn bæði fyrir inn- og útflutning, almennan innflutning og þá sjávarafurðir í útflutningi,“ segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri Sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskip.

Þá mun Reyðarfjörður tengjast þessari nýju viðkomu í Póllandi með umlestun í Tórshavn.

„Skrifstofa Eimskips í Póllandi hefur starfað frá 2013 og hefur áralanga reynslu af for- og áframflutningi, alhliða tollamálum og þjónustu við Íslandsmarkað. Viðskiptavinir okkar geta því treyst á skilvirka og örugga þjónustu,“ segir Björn enn frekar.