Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði um rúm 3% í um 216 milljón króna viðskiptum í dag en félagið birti stjórnendauppgjör eftir lokun markaða í gær.
Samkvæmt uppgjörinu gekk rekstur félagsins á fjórða ársfjórðungi og fyrir árið 2024 vel þrátt fyrir erfiða byrjun á árinu.
Seinni hluti ársins var sérstaklega öflugur, en rúmlega 60% EBITDA-framlegðar varð til á síðari helmingi ársins.
Tekjur Eimskips á fjórða ársfjórðungi námu 227,2 milljónum evra, sem er aukning um 14,1% frá sama tímabili árið áður. Samsvarar það um 33,3 milljörðum króna á gengi dagsins.
EBITDA nam 27,1 milljón evra og jókst um 19,5%, en EBITDA-hlutfall var 11,9% samanborið við 11,4% árið 2023.
Tekjur Eimskips á árinu 2024 námu 847,1 milljón evra, sem er aukning um 3,6% frá árinu 2023, þrátt fyrir samdrátt á fyrri hluta ársins.
Hagnaður eftir skatta nam 30 milljónum evra, sem samsvarar um 4,4 milljörðum króna á gengi dagsins.
Hlutabréfaverð JBT Marel leiddi lækkanir á markaði er gengi félagsins fór niður um tæp 3% í 86 milljón króna veltu. Dagslokagengi JBT Marel var 17.800 krónur.
Gengi Icelandair lækkaði einnig í viðskiptum dagsins er gengið fór niður um tæp 2% í 72 milljón króna veltu.
Dagslokagengi flugfélagsins var 1,37 krónur á hlut.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,60% og var heildarvelta á markaði 4,1 milljarður.