Hluta­bréfa­verð Eim­skips hækkaði um rúm 2% í rúm­lega 300 milljóna króna við­skiptum í dag.

Dagsloka­gengi gáma­flutningafélagsins var 390 krónur en gengið hefur tekið við sér á þriðja fjórðungi og hækkað um rúm 9% síðastliðinn mánuð.

Hluta­bréfa­verð Haga hækkaði einnig um rúm 2% í við­skiptum dagsins og var dagsloka­gengið 99 krónur.

Gengi Haga hefur aldrei verið hærra eftir um 27% hækkun á árinu og um 53% hækkun síðastliðið ár.

Ís­lenska málm­leitarfélagið Amaroq Minerals greindi frá fyrstu gull­fram­leiðslu félagsins í Græn­landi fyrir opnun markaða og rauk gengið upp í fyrstu við­skiptum.

Um tíu­leytið í morgun fór gengi Amaroq í 152,5 krónur og hafði þá aldrei verið hærra. Gengi félagsins dalaði þó þegar leið á daginn og lokaði í 150,5 krónum.

Hluta­bréfa­verð Play lækkaði í ör­við­skiptum um 5% og fór gengið niður í 0,97 krónur.

Mesta veltan var með bréf Marels er gengi félagsins stóð næstum óbreytt í 1,5 milljarða króna veltu.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,22% og var heildar­velta á markaði 6,4 milljarðar.