Samkvæmt stjórnendauppgjöri Eimskips gekk rekstur félagsins á fjórða ársfjórðungi og fyrir árið 2024 vel þrátt fyrir erfiða byrjun á árinu.
Seinni hluti ársins var sérstaklega öflugur, en rúmlega 60% EBITDA-framlegðar varð á síðari helmingi ársins.
Tekjur Eimskips á fjórða ársfjórðungi námu 227,2 milljónum evra, sem er aukning um 14,1% frá sama tímabili árið áður. Samsvarar það um 33,3 milljörðum króna á gengi dagsins.
EBITDA nam 27,1 milljón evra og jókst um 19,5%, en EBITDA-hlutfall var 11,9% samanborið við 11,4% árið 2023.
„Við erum ánægð með afkomu ársins 2024, sérstaklega í ljósi erfiðrar byrjunar á árinu. Niðurstöður fyrsta ársfjórðungs voru undir væntingum, en jákvæð þróun átti sér stað þegar líða fór á árið og rúmlega 60% af EBITDA varð til á seinni helmingi ársins. Bætt afkoma var drifin áfram af góðri frammistöðu gámasiglingakerfisins á seinni hluta ársins með stórbættri afkomu í Trans-Atlantic þjónustu, góðu magni og samsetningu þess í útflutningi frá Íslandi og mun betri afkomu í alþjóðlegri flutningsmiðlun,” segir Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskips.
Samkvæmt uppgjörinu var afkoma siglingakerfisins drifin áfram af góðri aukningu á magni í Trans-Atlantic flutningum og auknum útflutningi frá Íslandi.
Þá náði alþjóðleg flutningsmiðlun góðum árangri með auknu magni og hærri framlegð vegna hækkunar á alþjóðlegum flutningsverðum.
Hagnaður eftir skatta á fjórðungnum nam 7,3 milljónum evra, sem samsvarar rúmum milljarði króna á gengi dagsins, en mun vera lækkun úr 8,4 milljónum evra árið áður.
„Jákvæða þróun í Trans-Atlantic má rekja til aukningar í magni og hærri alþjóðlegra flutningsverða, sem að hluta til mátti rekja til yfirvofandi verkfalla hafnarverkamanna á austurströnd Bandaríkjanna. Innflutningur til Íslands var minni en á árinu 2023, sérstaklega innflutningur á bifreiðum eins og búist var við. Innflutningur til Færeyja jókst á seinni helmingi ársins, með auknum stórflutningum og þá jókst magn í frystiflutningakerfinu í Noregi á milli ára, þó að afkoma hafi verið lakari í ljósi óhagstæðrar samsetningar í flutningi. Afkoma á innanlandssviði var sambærileg við árið á undan með áframhaldandi góðum gangi í sjávarútvegi og laxeldi,” segir Vilhelm.
Tekjur Eimskips á árinu 2024 námu 847,1 milljón evra, sem er aukning um 3,6% frá árinu 2023, þrátt fyrir samdrátt á fyrri hluta ársins.
Rekstrarkostnaður jókst um 54,7 milljónir evra og nam 749,3 milljónum evra, aðallega vegna hærri kostnaðar við aðkeypta flutningsþjónustu.
EBITDA félagsins var 97,8 milljónir evra, samanborið við 123,4 milljónir evra árið áður. EBIT lækkaði úr 61 milljón evra í 34,9 milljónir evra, og hagnaður eftir skatta nam 30 milljónum evra, sem samsvarar um 4,4 milljörðum króna á gengi dagsins.
Mun það vera þó lækkun úr 54,5 milljónum evra árið 2023.
„Við héldum áfram að fjárfesta í innviðum félagsins og námu viðhaldsfjárfestingar um 27 milljónum evra og nýfjárfestingar um 11,5 milljónum evra, sem var í takt við áætlanir. Ný fjárfestingaáætlun gerir ráð fyrir viðhaldsfjárfestingum á bilinu 29-32 milljónum evra á næstu þrem árum og 15-18 milljóna evra nýfjárfestingum á sama tímabili. Nýfjárfestingar í skipaflota, sem hafa verið í vinnslu síðasta eina og hálfa árið, eru ekki hluti af þessum áætlunum þar sem formleg ákvörðun um slíkar fjárfestingar hefur ekki verið tekin,” segir Vilhelm.
Samkvæmt stjórnendauppgjörinu var gott sjóðstreymi frá rekstri sem tryggði lausafjárstöðu upp á 28,7 milljónir evra í árslok 2024.
Skuldsetningarhlutfall var 2,28x í lok ársins, en langtímamarkmið félagsins gerir ráð fyrir 2-3x. Eiginfjárhlutfall var 47,7%, vel yfir langtímamarkmiðum um 40%.