Sam­kvæmt stjórn­enda­upp­gjöri Eim­skips gekk rekstur félagsins á fjórða árs­fjórðungi og fyrir árið 2024 vel þrátt fyrir erfiða byrjun á árinu.

Seinni hluti ársins var sér­stak­lega öflugur, en rúm­lega 60% EBITDA-fram­legðar varð á síðari helmingi ársins.

Tekjur Eim­skips á fjórða árs­fjórðungi námu 227,2 milljónum evra, sem er aukning um 14,1% frá sama tíma­bili árið áður. Sam­svarar það um 33,3 milljörðum króna á gengi dagsins.

EBITDA nam 27,1 milljón evra og jókst um 19,5%, en EBITDA-hlut­fall var 11,9% saman­borið við 11,4% árið 2023.

„Við erum ánægð með af­komu ársins 2024, sér­stak­lega í ljósi erfiðrar byrjunar á árinu. Niður­stöður fyrsta árs­fjórðungs voru undir væntingum, en jákvæð þróun átti sér stað þegar líða fór á árið og rúm­lega 60% af EBITDA varð til á seinni helmingi ársins. Bætt af­koma var drifin áfram af góðri frammistöðu gáma­siglinga­kerfisins á seinni hluta ársins með stór­bættri af­komu í Trans-At­lantic þjónustu, góðu magni og sam­setningu þess í út­flutningi frá Ís­landi og mun betri af­komu í alþjóð­legri flutnings­miðlun,” segir Vil­helm Már Þor­steins­son for­stjóri Eim­skips.

Sam­kvæmt upp­gjörinu var af­koma siglinga­kerfisins drifin áfram af góðri aukningu á magni í Trans-At­lantic flutningum og auknum út­flutningi frá Ís­landi.

Þá náði alþjóð­leg flutnings­miðlun góðum árangri með auknu magni og hærri fram­legð vegna hækkunar á alþjóð­legum flutnings­verðum.

Hagnaður eftir skatta á fjórðungnum nam 7,3 milljónum evra, sem sam­svarar rúmum milljarði króna á gengi dagsins, en mun vera lækkun úr 8,4 milljónum evra árið áður.

„Jákvæða þróun í Trans-At­lantic má rekja til aukningar í magni og hærri alþjóð­legra flutnings­verða, sem að hluta til mátti rekja til yfir­vofandi verk­falla hafnar­verka­manna á austur­strönd Bandaríkjanna. Inn­flutningur til Ís­lands var minni en á árinu 2023, sér­stak­lega inn­flutningur á bif­reiðum eins og búist var við. Inn­flutningur til Færeyja jókst á seinni helmingi ársins, með auknum stór­flutningum og þá jókst magn í frysti­flutninga­kerfinu í Noregi á milli ára, þó að af­koma hafi verið lakari í ljósi óhagstæðrar sam­setningar í flutningi. Af­koma á innan­lands­sviði var sam­bæri­leg við árið á undan með áfram­haldandi góðum gangi í sjávarút­vegi og lax­eldi,” segir Vil­helm.

Tekjur Eim­skips á árinu 2024 námu 847,1 milljón evra, sem er aukning um 3,6% frá árinu 2023, þrátt fyrir sam­drátt á fyrri hluta ársins.

Rekstrar­kostnaður jókst um 54,7 milljónir evra og nam 749,3 milljónum evra, aðal­lega vegna hærri kostnaðar við að­keypta flutningsþjónustu.

EBITDA félagsins var 97,8 milljónir evra, saman­borið við 123,4 milljónir evra árið áður. EBIT lækkaði úr 61 milljón evra í 34,9 milljónir evra, og hagnaður eftir skatta nam 30 milljónum evra, sem sam­svarar um 4,4 milljörðum króna á gengi dagsins.

Mun það vera þó lækkun úr 54,5 milljónum evra árið 2023.

„Við héldum áfram að fjár­festa í inn­viðum félagsins og námu viðhalds­fjár­festingar um 27 milljónum evra og nýfjár­festingar um 11,5 milljónum evra, sem var í takt við áætlanir. Ný fjár­festingaáætlun gerir ráð fyrir viðhalds­fjár­festingum á bilinu 29-32 milljónum evra á næstu þrem árum og 15-18 milljóna evra nýfjár­festingum á sama tíma­bili. Nýfjár­festingar í skipa­flota, sem hafa verið í vinnslu síðasta eina og hálfa árið, eru ekki hluti af þessum áætlunum þar sem form­leg ákvörðun um slíkar fjár­festingar hefur ekki verið tekin,” segir Vil­helm.

Sam­kvæmt stjórn­enda­upp­gjörinu var gott sjóð­streymi frá rekstri sem tryggði lausa­fjár­stöðu upp á 28,7 milljónir evra í árs­lok 2024.

Skuld­setningar­hlut­fall var 2,28x í lok ársins, en langtíma­mark­mið félagsins gerir ráð fyrir 2-3x. Eigin­fjár­hlut­fall var 47,7%, vel yfir langtíma­mark­miðum um 40%.