Eimskip Greenland A/S hefur keypt umboðs- og flutningsmiðlunarstarfsemi Royal Arctic Line á Grænlandi. Að uppfylltum fyrirvörum í kaupsamningi munu kaupin taka gildi frá og 1. mái 2023.

Kaupin munu að líkindum styrkja stöðu Eimskips í Norður Atlantshafi enn frekar en Eimskip hefur starfrækt flutningsmiðlun í Nuuk á Grænlandi frá 2020.

Reksturinn sem Eimskip kaupir samanstendur af flutningsmiðlun og umboðsþjónustu við skip sem hafa viðkomu á Grænlandi svo sem skemmtiferðaskip, togara og fleira. Eimskip færir sig nú inn á grænlenskan markað eftir að hafa byggt upp umboðsþjónustu sína á Íslandi og í Færeyjum.

„Kaupin á þessum rekstri eru mikilvægur áfangi fyrir Eimskip á Grænlandi og rökrétt skref í þjónustu Eimskips á norðurslóðum. Grænland er spennandi og vaxandi markaðssvæði sem við höfum trú á til framtíðar. Við erum þess fullviss að þessi kaup muni skapa ný vaxtatækifæri fyrir Eimskip og stuðla að þróun á öflugri og fjölbreyttri starfsemi félagsins á svæðinu,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.