Fyrrverandi formenn Samtaka ferðaþjónustunnar líta yfir farinn veg og meta stöðu ferðaþjónustunnar og framtíðarhorfur í sérblaði, sem Viðskiptablaðið gaf út vegna 25 ára afmælis samtakanna.
Grímur Sæmundsen var formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá árinu 2014 til 2018. Hér svarar hann þremur spurningum:
Fyrrverandi formenn Samtaka ferðaþjónustunnar líta yfir farinn veg og meta stöðu ferðaþjónustunnar og framtíðarhorfur í sérblaði, sem Viðskiptablaðið gaf út vegna 25 ára afmælis samtakanna.
Grímur Sæmundsen var formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá árinu 2014 til 2018. Hér svarar hann þremur spurningum:
Hvað stóð upp úr á þinni stjórnartíð?
Það er af mörgu að taka en það hvernig ferðaþjónustan spratt fram á stuttum tíma sem ein af burðarstoðum í íslensku efnahagslífi og, á sama tíma, allar þær áskoranir sem svo hröðum vexti fylgdi kemur strax upp í hugann. Þá vil ég nefna Stjórnstöð ferðamanna, samstarfsvettvang stjórnvalda, greinarinnar og sveitarfélaganna hvað varðar málefni ferðaþjónustunnar sem stofnað var til árið 2016 og starfaði tímabundið í 5 ár. Sá vettvangur sannaði gildi sitt enda mörg og flókin úrlausnarefni sem fylgja hröðum vexti nýrrar atvinnugreinar.
Hver er þín sýn á ferðaþjónustuna í dag?
Mikið hefur áunnist á síðustu árum á sama tíma og langt er í land. Það er óumdeilt að ferðaþjónustan hefur haft gríðarlega mikil og jákvæð áhrif á viðspyrnu íslensk efnahagslífs á síðustu árum og nú síðast eftir heimsfaraldurinn.
Ég er þess fullviss að með áframhaldandi uppbyggingu, metnaði fyrirtækja í greininni og sterkri og hvetjandi umgjörð frá ríki og sveitarfélögum hefur hún alla burði til að þróast með þeim hætti að gæði áfangastaðarins og dvalartími vegi þyngra en fjöldi ferðamanna sem til landsins koma hverju sinni.
Hvernig sérðu ferðaþjónustuna þróast?
Ef rétt verður haldið á spilum hvað varðar uppbyggingu innviða, eflingar gæða í ferðaþjónustu og markvissri markaðssetningu er ég er ekki í vafa um að ferðaþjónustan muni halda áfram að skila gríðarlegum verðmætum til samfélagsins og blómga byggðir um allt land.
Fjallað er um málið afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár.