Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, telur að nýsköpun sé ein af meginforsendum hagvaxtar til næstu áratuga. Þrátt fyrir að vera almennt hlynnt einkaframtakinu telur hún að hið opinbera hafi mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að nýsköpun og horfir hún til annarra landa í því samhengi. Bæði getur hið opinbera látið til sín taka með reglugerðum sem styðja við nýsköpun en einnig með fjárframlögum að sögn Þórdísar. Hún telur að sama skapi að Íslendingar ættu að stefna á að vera framúrskarandi í nýsköpun á færri og afmarkaðri sviðum fremur en að reyna að vera „góðir í öllu“.
Hversu mikilvæg er nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í þínum huga fyrir samfélagið í heild?
„Ég nálgast þá spurningu dálítið með það unga fólk í huga sem er að vaxa úr grasi og þróa með sér vitund um mögulegt hlutverk sitt í samfélaginu. Það vill kannski einn daginn breyta Íslandi, jafnvel heiminum, eða í það minnsta hafa tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið á einhvern hátt. Þetta unga fólk heyrir talað um sýndarveruleika, þrívíddarprentun, nýja orkugjafa, ferðir til Mars, gervigreind og vélmenni og allt kveikir þetta þá hugsun að stórkostleg tækifæri séu til að láta að sér kveða. Ég vil byggja umhverfi sem ýtir undir þessa hugsun hjá ungu fólki og býr líka til raunhæfar leiðir til að láta metnaðarfull markmið þess um betri heim verða að veruleika. Nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er að sjálfsögðu ein af meginforsendum hagvaxtar. Í skýrslu McKinsey um vaxtarmöguleika Íslands til framtíðar segir að Íslendingar þurfi að auka verðmæti útflutnings um rúmlega 1.000 milljarða til að tryggja 3-4% hagvöxt til ársins 2030. Við erum með mjög öfluga grundvallaratvinnuvegi í landinu en þeir byggja allir á takmörkuðum auðlindum. Hugvit er aftur á móti ótakmörkuð auðlind, þannig að þetta snýst ekki bara um að hafa áhuga á að leggja aukna áherslu á nýsköpun. Ég tel að það sé okkur lífsnauðsynlegt til að halda uppi öflugu samfélagi, halda í fólkið okkar og halda uppi því velferðarkerfi sem við gerum kröfu um.“
Þurfum að horfa til annarra landa
Hvaða hlutverki hefur ríkið og hið opinbera að gegna í að ýta undir nýsköpun?
„Stjórnvöld og Alþingi setja regluverkið og það verður að endurspegla umhverfið sem við viljum sjá og frumkvöðlar telja mikilvægt að sé til staðar. Við höfum gert margt hvað þetta varðar. Breytt nýsköpunarlög í fyrra, sem voru afrakstur vinnu á vegum fjármálaráðherra og nýsköpunarráðherra, bættu íslenskt frumkvöðlaumhverfi til muna. Það er ekki þar með sagt að við getum bara hakað við það og sagt að þessu verkefni sé lokið, en þar má finna atriði á borð við skattaafslátt vegna hlutafjárkaupa einstaklinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og hækkun á endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Það er mín skoðun að við eigum að hækka þakið enn frekar. Þarna var stigið stórt skref sem skiptir máli en við þurfum alltaf að reyna að gera betur.
Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi einkum að beita sér í grundvallarinnviðum á borð við heilbrigðiskerfi, menntakerfi, lögreglu, dómsvald o.þ.h. Það er hins vegar svo að þau ríki sem standa upp úr þegar kemur að nýsköpun eru sjálf að setja ríkisfé í stuðningskerfi og fjárfestingar á allra fyrstu stigum, enda er álitið að samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur af öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi sé ótvíræður. Við búum í landi þar sem ríkið hefur mjög víðtækt hlutverk. Heilbrigðis- og menntakerfi eru að langmestu leyti á hendi ríkisins. Þetta er sterkur þáttur í okkar samfélagsgerð og ég loka ekkert augunum fyrir því þótt ég sé eindregið hlynnt einkaframtakinu. Það er skynsamlegt að horfa til ríkjanna sem hafa náð mestum árangri, sjá hvað þau eru að gera og læra af því. Við ættum ekki að eyða allt of miklum tíma í að finna upp hjólið í þessum efnum, heldur skoða hvað virkar og hvort það geti virkað fyrir okkur. Það eru svo mörg tækifæri hér, tengslanetið er mjög öflugt og boðleiðirnar stuttar, og svo virðist vera viðhorf og karaktereinkenni í Íslendingum sem drífa áfram nýsköpun. Það fer mjög vel saman og við þurfum að halda í það og lyfta því upp. Hluti af ábyrgð stjórnvalda er að horfa fram á veginn og reyna að tryggja að lífsgæði núverandi og komandi kynslóða haldist og eflist. Enginn vafi er á að framfarir í þekkingu munu þar skipta sköpum en þær verða ekki af sjálfu sér.“
Nánar er rætt við Þórdísi Kolbrúnu í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, telur að nýsköpun sé ein af meginforsendum hagvaxtar til næstu áratuga. Þrátt fyrir að vera almennt hlynnt einkaframtakinu telur hún að hið opinbera hafi mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að nýsköpun og horfir hún til annarra landa í því samhengi. Bæði getur hið opinbera látið til sín taka með reglugerðum sem styðja við nýsköpun en einnig með fjárframlögum að sögn Þórdísar. Hún telur að sama skapi að Íslendingar ættu að stefna á að vera framúrskarandi í nýsköpun á færri og afmarkaðri sviðum fremur en að reyna að vera „góðir í öllu“.
Hversu mikilvæg er nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í þínum huga fyrir samfélagið í heild?
„Ég nálgast þá spurningu dálítið með það unga fólk í huga sem er að vaxa úr grasi og þróa með sér vitund um mögulegt hlutverk sitt í samfélaginu. Það vill kannski einn daginn breyta Íslandi, jafnvel heiminum, eða í það minnsta hafa tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið á einhvern hátt. Þetta unga fólk heyrir talað um sýndarveruleika, þrívíddarprentun, nýja orkugjafa, ferðir til Mars, gervigreind og vélmenni og allt kveikir þetta þá hugsun að stórkostleg tækifæri séu til að láta að sér kveða. Ég vil byggja umhverfi sem ýtir undir þessa hugsun hjá ungu fólki og býr líka til raunhæfar leiðir til að láta metnaðarfull markmið þess um betri heim verða að veruleika. Nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er að sjálfsögðu ein af meginforsendum hagvaxtar. Í skýrslu McKinsey um vaxtarmöguleika Íslands til framtíðar segir að Íslendingar þurfi að auka verðmæti útflutnings um rúmlega 1.000 milljarða til að tryggja 3-4% hagvöxt til ársins 2030. Við erum með mjög öfluga grundvallaratvinnuvegi í landinu en þeir byggja allir á takmörkuðum auðlindum. Hugvit er aftur á móti ótakmörkuð auðlind, þannig að þetta snýst ekki bara um að hafa áhuga á að leggja aukna áherslu á nýsköpun. Ég tel að það sé okkur lífsnauðsynlegt til að halda uppi öflugu samfélagi, halda í fólkið okkar og halda uppi því velferðarkerfi sem við gerum kröfu um.“
Þurfum að horfa til annarra landa
Hvaða hlutverki hefur ríkið og hið opinbera að gegna í að ýta undir nýsköpun?
„Stjórnvöld og Alþingi setja regluverkið og það verður að endurspegla umhverfið sem við viljum sjá og frumkvöðlar telja mikilvægt að sé til staðar. Við höfum gert margt hvað þetta varðar. Breytt nýsköpunarlög í fyrra, sem voru afrakstur vinnu á vegum fjármálaráðherra og nýsköpunarráðherra, bættu íslenskt frumkvöðlaumhverfi til muna. Það er ekki þar með sagt að við getum bara hakað við það og sagt að þessu verkefni sé lokið, en þar má finna atriði á borð við skattaafslátt vegna hlutafjárkaupa einstaklinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og hækkun á endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Það er mín skoðun að við eigum að hækka þakið enn frekar. Þarna var stigið stórt skref sem skiptir máli en við þurfum alltaf að reyna að gera betur.
Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi einkum að beita sér í grundvallarinnviðum á borð við heilbrigðiskerfi, menntakerfi, lögreglu, dómsvald o.þ.h. Það er hins vegar svo að þau ríki sem standa upp úr þegar kemur að nýsköpun eru sjálf að setja ríkisfé í stuðningskerfi og fjárfestingar á allra fyrstu stigum, enda er álitið að samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur af öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi sé ótvíræður. Við búum í landi þar sem ríkið hefur mjög víðtækt hlutverk. Heilbrigðis- og menntakerfi eru að langmestu leyti á hendi ríkisins. Þetta er sterkur þáttur í okkar samfélagsgerð og ég loka ekkert augunum fyrir því þótt ég sé eindregið hlynnt einkaframtakinu. Það er skynsamlegt að horfa til ríkjanna sem hafa náð mestum árangri, sjá hvað þau eru að gera og læra af því. Við ættum ekki að eyða allt of miklum tíma í að finna upp hjólið í þessum efnum, heldur skoða hvað virkar og hvort það geti virkað fyrir okkur. Það eru svo mörg tækifæri hér, tengslanetið er mjög öflugt og boðleiðirnar stuttar, og svo virðist vera viðhorf og karaktereinkenni í Íslendingum sem drífa áfram nýsköpun. Það fer mjög vel saman og við þurfum að halda í það og lyfta því upp. Hluti af ábyrgð stjórnvalda er að horfa fram á veginn og reyna að tryggja að lífsgæði núverandi og komandi kynslóða haldist og eflist. Enginn vafi er á að framfarir í þekkingu munu þar skipta sköpum en þær verða ekki af sjálfu sér.“
Nánar er rætt við Þórdísi Kolbrúnu í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.