Líftæknifyrirtækið Kerecis skorar á ríkisstjórn og Alþingi að vísa frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald til viðeigandi ráðuneyta til frekari meðferðar og samráðs.

Í umsögn félagsins sem send var Alþingi í gær segir að aðkoma stjórnvalda að málinu einkennist af flýti og skorti á faglegum vinnubrögðum, með því að ráðist sé í grundvallarbreytingar á rekstrarskilyrðum heillar atvinnugreinar án nægilegrar greiningar eða umræðu.

„Óháð afstöðu hagsmunaaðila, þingmanna og annarra gagnvart frumvarpinu, efni og áhrifum þess telur Kerecis að jafn viðamikið og mikilvægt úrlausnarefni krefjist faglegri meðferðar, aukins samráðs, ítarlegri greiningar og nánari samfélagsumræðu áður en frumvarpið fær afgreiðslu þingsins. Enda eru hagsmunirnir ekki litlir, en útflutningstekjur íslensks sjávarútvegs námu tæplega 350 milljörðum króna árið 2024 eða nærri 18% íslenskra útflutningstekna,“ segir í umsögninni sem Hlynur Ólafsson, yfirlögfræðingur félagsins skrifar.

Varar við áhrifum á fjár­festingar

Kerecis bendir á að vinnu­brögð sem þessi sendi fráhrindandi skila­boð til er­lendra fjár­festa sem vilja byggja upp nýsköpun á Ís­landi.

Slík fljót­færni við laga­setningu, án sam­tals, geti grafið undan trausti, aukið óstöðug­leika og ógnað fjár­festingum í sjávarút­vegi og tengdum greinum, þar á meðal líftækni.

„Að öðrum kosti er ein megin­for­senda ís­lenskrar vel­ferðar í upp­námi með til­heyrandi áhættu fyrir ís­lenskt sam­félag,“ segir félagið.

Efna­hags­leg áhrif á lands­byggð og nýsköpun

Félagið varar sér­stak­lega við áhrifum frum­varpsins á lands­byggðina, þar sem sjávarút­vegur sé oft burðarás at­vinnulífsins.

Kerecis, sem er með höfuðstöðvar á Ísafirði, bendir á að ef frum­varpið verði að lögum muni veiðigjöld helstu sjávarút­vegs­fyrir­tækja á Vest­fjörðum tvöfaldast án þess að það skili sér til heima­byggðar.

Samkvæmt Kerecis skal heldur ekki van­meta þau beinu og óbeinu skila­boð sem vinnu­brögð af þessu tagi senda þeim er­lendu aðilum sem hér hafa fjár­fest, eða kunna að hafa áhuga á að fjár­festa, í ís­lenskum at­vinnu­vegi og nýsköpun.

Ekki skal taka því sem sjálfsögðum hlut að er­lendir fjár­festar og stór­fyrir­tæki kjósi að beina fjár­munum og fjár­magni til Ís­lands hvort sem það fer fram með stofnun fyrir­tækja, kaupum á verðbréfum, lán­veitingum eða með öðrum hætti.

Einnig er bent á að öflugur sjávarút­vegur skapi hvata fyrir fjár­festingu í gæðum, tækni­búnaði, nýsköpun og sér­fræðistörfum.

Slíkar keðju­verkanir hafi verið drif­kraftur vaxtar Kerecis sjálfs og séu lífs­nauð­syn­legar til að ís­lensk nýsköpun haldi áfram að dafna í alþjóð­legu um­hverfi.

Að lokum segir í um­sögninni að frum­varpið sé ekki einungis tækni­legt skatta­mál heldur varði það „meiri­háttar hags­muni allra Ís­lendinga“ og eigi sér beina tengingu við framtíðarsýn þjóðarinnar um velsæld og verðmæta­sköpun.

„Að öllu framan­greindu virtu skorar Kerecis á ríkis­stjórn og þing­menn að vísa frum­varpinu til við­eig­andi ráðu­neyta til frekari með­ferðar og um­ræðu með hag­höfum í sam­félaginu. Ljóst er að frum­varpið varðar meiri­háttar hags­muni allra Ís­lendinga og hefur beina tengingu við veg­ferð okkar allra í átt að aukinni velsæld hér á landi,“ segir í niður­lagi um­sagnarinnar, undir­ritaðri af yfir­lög­fræðingi Kerecis, Hlyni Ólafs­syni.