Air India hefur inn pöntun fyrir 470 flugvélar frá Airbus og Boeing. Um er að ræða eina stærstu pöntun á farþegaflugvélum í sögu fluggeirans, að því er segir í frétt Wall Street Journal.
Indverska flugfélagið hafur náð samkomulagi við Airbus um 250 vélar, þar af 210 A320neo vélar og 40 af stærstu vélum Airbus, A350. Stjórnarformaður Air India sagði að stærri vélarnar verði nýttar á lengst flugleiðum félagsins.
Þá tilkynnti Joe Biden Bandaríkjaforseti í dag um Air India hefði lagt inn aðra eins pöntun hjá Boeing síðar í vikunni. Indverska flugfélagið hyggst kaupa 190 MAX-737 vélar, tuttugu 787 Dreamliner vélar og tíu 777X vélar. Jafnframt áskilur flugfélagið sér rétt um að kaupa 70 þotur til viðbótar.
Kaupin eru hluti af endurskipulagningu á rekstri Air India í kjölfar þess að Tata Group samstæðan keypti flugfélagið af indverska ríkissjóðnum í byrjun síðasta árs fyrir tæplega 2,4 milljarða dala. Tata fjölskyldan stofnaði flugfélagið árið 1932 undir nafninu Tata Airlines en indverska ríkisstjórnin þjóðnýtti félagið árið 1953.
Í umfjöllun Financial Times segir að Airbus hafi ekki gefið upp söluverð vélanna. Miðað við ásett verð Boeing vélanna nemur söluverð bandaríska flugvélaframleiðandans 34 milljörðum dala en flugfélög fá þá yfirleitt afslætti sem geta farið upp í allt að 50%.
Boeing hefur spáð því að enginn flugmarkaður í heimi muni vaxa hraðar en Indland á næstu tveimur áratugum. Bandaríski flugvélaframleiðandinn gerir ráð fyrir að Indland muni þurfa 2.210 nýjar flugvélar á næstu tuttugu árum, að stórum hluta til anna vaxandi eftirspurn fyrir innanlandsflug.